28.4.2012 23:00

Laugardagur 28. 04. 12

Stjórnarliðum er mikið í mun að halda í goðsögnina um 1.000 milljarða evru „snjóhengjuna“ sem hvíli yfir okkur Íslendingum. Vinstri grænum dugar hún til að viðhalda gjaldeyrishöftunum sem þeir misnota til að hafa puttana í innri málum fyrirtækja og sýna vald sitt. Samfylkingin lítur á „hengjuna“ sem tæki í baráttu sinni fyrir aðild að ESB, ekki verði unnt að losna við hana nema með evru og hún fáist ekki án aðildar að ESB.

Þess verður nú vart að ýmsir sem hafa barist fyrir ESB-aðild í þágu evrunnar hafa skipt um skoðun og leggja nú einhliða upptöku annars gjaldmiðils lið. Fyrir þá sem telja óhjákvæmilegt að skipta um mynt er evran óskynsamlegasti kosturinn. Mesta óvissan er í kringum hana af öllum kostunum. Hér skulu nefnd fjögur vafaatriði:

Í fyrsta lagi er ólíklegt að Íslendingar samþykki nokkru sinni að ganga í ESB. Í öðru lagi er óvíst hvað taki langan tíma að semja um ESB-aðild. Í þriðja lagi er óljóst hvað taki langan tíma, ef til aðildar kæmi, að fullnægja skilyrðum um upptöku evru. Í fjórða lagi er ógjörningur að segja um hver þessi skilyrði verða þegar fram líða stundir.

Auðveldara er að rökstyðja nauðsyn þess að hætta ESB-viðræðunum vilji menn nýja mynt en að halda þeim áfram til að nálgast það markmið. Hér á landi er nú Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, sem kynnir leiðir til að taka upp nýjan gjaldmiðil. Hann lætur hræðsluáróður um „snjóhengjuna“ sem vind um eyru þjóta. Hún sé frekar hugarburður en raunveruleiki.

Á meðan stjórnarflokkarnir eru fastir í fari eigin pólitíkur og hræðsluáróðurs dregst enn að tekist sé á við raunveruleg vandamál við stjórn peningamála.