19.4.2012 19:00

Fimmtudagur 19. 04. 12

Gleðilegt sumar!

Vel hefur tekist að endurnýja útisvæði og potta Laugardalslaugarinnar sem opnuð var að nýju í morgun eftir að hafa verið lokað í aðeins þrjá daga vegna framkvæmdanna. Fyrirfram höfðu líklega fáir sundgestir búist við því að ekki þyrfti að loka lauginni í lengri tíma en þennan í tengslum við svo viðamiklar framkvæmdir sem hófust nokkrum vikum fyrir áramót. Nokkra daga hefur ekki verið innheimtur aðgangseyrir af gestum vegna takmarkaðrar þjónustu á laugarsvæðinu. Ávallt hefur þó verið unnt að synda í lauginni. Við sem sækjum hana áður en dagvinnutími hefst höfum ekki orðið að þola sama hávaða og hinir sem hafa stundað sund eftir að drunur höggbora eða annarra vinnutækja rufu kyrrðina.

Dagana þrjá sem Laugardalslaugin var lokuð fór ég í Sundhöllina og hitti gamla sundfélaga þar. Í Sundhöllinni er prýðilegur nuddpottur og aðstaðan til að þurrka sig utan dyra er frábær, Laugardalslaugin býður ekkert sambærilegt. Á hinn bóginn kann ég mun betur við að synda utan dyra en inni og 50 metra laug gefur meira en 25 metra. Þá er ekki unnt annað en dást að klefum Guðjóns Samúelssonar í Sundhöllinni.

Ari Trausti Guðmundsson gaf kost á sér til embættis forseta Íslands í dag. Sigurður Sigurðarson lýsir honum sem verðugum fulltrúa þjóðarinnar á Bessastöðum og segir á bloggi sínu: „Þó svo að hann [Ari Trausti] sé gamall kommi veit ég að margir sjálfstæðismenn geta hugsað sér að styðja hann í komandi forsetakosningum. Dæmi eru um að undarlegustu vinstri menn hafi bara reynst ágætir forsetar.“ Það skyldi þó aldrei verða gamall marxisti-lenínisti sem drægi fylgi sjálfstæðismanna frá Ólafi Ragnari?