5.4.2012 15:30

Fimmtudagur 05. 04. 12

Á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá því að Evrópuvaktin fór í loftið hefur enginn fjölmiðill birt meira efni á íslensku um ESB og málefni tengd aðildarumsókn Íslands. Á vefsíðunni er haldið utan um höfuðþætti viðræðnanna auk þess sem fjallað er um þær í stóru samhengi með vísan til þróunar innan Evrópusambandsins og á norðurslóðum. Að kenna síðuna við hefðbundna bloggsíðu þar sem menn mata aðra á eigin visku án þess að geta heimilda eða jafnvel virða staðreyndir er fráleitt. Evrópuvaktin sver sig í ætt við fréttasíður á alþjóðavettvangi sem flytja fréttir tengdar sérstökum málaflokki.

Evrópuvaktin fullnægir öllum skilyrðum sem sett eru af alþingi þegar teknar eru ákvarðanir um styrkveitingu vegna umræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Alþingi hefur sjálft ákveðið reglur um þessa styrki, nefnd á vegum þess úthlutar þeim, embættismenn og ríkisendurskoðun fylgjast með framkvæmdinni.

Evrópuvaktin hlaut 4,5 m.kr. styrk árið 2011 til verkefna sem lýst var í umsókn. Evrópuvaktin mun sækja um að nýju í ár samkvæmt auglýsingu alþingis.

Í þann mund sem alþingi birti auglýsingu sína að þessu sinni hófu ESB-aðildarsinnar að gagnrýna styrk alþingis 2011 til Evrópuvaktarinnar og hvernig honum hefur verið ráðstafað. Alþingi hefur ekki gert athugasemd við þá ráðstöfun enda er hún í samræmi við umsóknina á sínum tíma.

Málflutningur ESB-aðildarsinna í þessu efni er í samræmi við ótta þeirra við að ræða efni aðildarumsóknarinnar, þróun aðildarviðræðnanna, stöðu aðildarmálsins nú og ástandið innan Evrópusambandsins. Það verður forvitnilegt að sjá hvort sparðatíningur ESB-aðildarsinna vegna ráðstöfunar á styrkfé til Evrópuvaktarinnar árið 2011 verði til þess að úthlutunarnefnd alþingis heykist á því að veita öflugasta miðli á fréttum um ESB styrk árið 2012.