2.4.2012 22:41

Mánudagur 02. 04. 12

Í dag birtist skoðanakönnum sem segir að Sjálfstæðisflokkurinn með 38% fylgi og Framsóknaflokkurinn með 13% fylgi fengju samtals 51% atkvæða ef kosið yrði núna, stjórnarflokkarnir fengju aðeins 28%, Samfylking 17% og VG 11%. Í janúar 2009 þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde stóð verst fékk hún 26%.

Stjórnarsamstarfið er í molum og hefur ekki styrkst eftir að stjórnarflokkarnir gerðu leynisamninginn við Hreyfinguna. Samningurinn varð til þess að stjórnaskrármálið breyttist endanlega í hringavitleysu milli alþingis og stjórnlagaráðs. Hún hefur ekki orðið til þess að auka fylgi ríkisstjórnarinnar.

Hér hefur því verið haldið fram frá því að Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra að hún mundi sitja þar til henni yrði bolað út úr embætti af þingflokki Samfylkingarinnar. Hann ber höfuðábyrgð á núverandi stöðu. Þar á bæ hefur enginn haft þrek til að snúast gegn Jóhönnu. Þingmenn Samfylkingarinnar eru meiri skræfur en Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. Hann hikar ekki við að segja Jóhönnu upphaf og endi alls ills í stjórnarsamstarfinu. Jón skortir þó kjark til að breyta þessum orðum í atkvæði gegn Jóhönnu í þingsalnum.