14.4.2012 20:53

Laugardagur 14. 04. 12

Klukkan 15.00 var ég í Seltjarnarneskirkju þegar listahátíð hennar var sett undir fyrirsögninni: Biblían og menningin „Vér viljum gera manninn í vorri mynd…“  Við setningu hátíðarinnar var opnuð sýning á 12 nýjum vatnslitamyndum eftir Karólínu Lárusdóttur út af Nýja testamentinu en Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur fjallaði um myndlist Karólínu.

Frá setningu listahátíðarinnar í Seltjarnarneskirkju fór ég niður að Reykjavíkurhöfn og í sal Íslenskrar grafíkur í Hafnarhúsinu þar sem er sýning á verkum Pjeturs Stefánssonar og Þórs Sigmundssonar. Var forvitnilegt að skoða hana og ræða við listamennina.

Ég talaði á fjölmennum fundi sjálfstæðismanna í Kópavogi í morgun. Einn fundarmanna vildi líkja saman húsleit hjá Baugi 28. ágúst og hjá Samherja á dögunum af því að ég sagðist telja tengsl á milli húsleitar hjá Samherja og framlagningar frumvarpsins um breytingar á fiskveiðstjórnarlögunum, hvort svipuð sjónarmið hefðu ekki ráðið hjá mér 2002 þegar leitað var hjá Baugi – ég sagðist ekki hafa verið dómsmálaráðherra og benti spyrjanda á að lesa Rosabaug yfir Íslandi. Annar stóð upp og sagði að félagi sinn hefði verið boðinn í glæsilegan morgunverð að Lágmúla 1 í prófkjörsbaráttunni haustið 2006, hann undraðist kræsingarnar, þá hafði honum verið bent á að koma í hádegisverðinn hann væri sko ekkert slor. Þetta var aðdragandi að spurningu um hvort mér þætti Sjálfstæðisflokkurinn hafa gert nægilega hreint fyrir sínum dyrum eftir hrun. Ég taldi svo ekki vera. Fram hefði komið að frambjóðandi hefði varið 25 til 30 m. kr.  að fella mig í prófkjöri. Það mundi enginn standa að prófkjörsbaráttu á sama veg núna. Flokkurinn hefði ekki gert þetta upp á viðundandi hátt, hann yrði að gera það fyrir næstu kosningar, annars nyti hann ekki trausts. Þarna var mál mitt rofið með lófataki.

Ég sagði stjórnlagadeiluna, fiskveiðilagadeiluna, deiluna um rammaáætlun og um aðild að ESB allt heimatilbúin vandamál ríkisstjórnarinnar. Hún hefði haft dagskrárvaldið og því væru þessi mál til umræðu, ný stjórn án þessara flokka mundi einfaldlega leggja þessi mál til hliðar og þar með yrðu þau úr sögunni sem vandræðamál á þingi.

 Sjá framhald með því að slá á Lesa meira hér fyrir neðan.


Önnur mál væru þess eðlis að óhjákvæmilegt væri að taka á þeim og leysa, nefndi ég þrjú Icesave-málið, gjaldeyrishöftin og makrílmálið. Ríkisstjórnin hefði enga burði til að takast á við þau. Hún hefði verið gerð afturreka með Icesave-lausn sína í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og stæði nú á barmi taugaáfalls vegna meðalgöngu ESB í málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Í makríldeilunni hefði það síðast gerst að Tómas H. Heiðar, samningamaður Íslands, hefði verið leystur frá störfum og utanríkisráðuneytið vildi þoka málinu inn í ESB-viðræðurnar. Bæði VG og Samfylking notuðu sér gjaldeyrishöftin til að skara eld að sinni köku, VG vildi að stjórnvöld hefðu þessi tök til að hlutast til um málefni einstaklinga og fyrirtækja, Samfylkingin vildi hafa höftin í von um að geta nýtt þau sem stökkpall inn í ESB. Helgi Hjörvar, samfylkingarformaður efnahags- og viðskiptanefndar alþingis, hefði sagt á alþingi 12. mars þegar höftin voru hert til að síðar mætti losa um þau (!) að aðeins aðild að ESB gæti skapað okkur leið út úr höftunum. Spurning væri hvort umræður um afnám hafta væru á réttu róli þegar einblínt væri að skuldbindingar gagnvart erlendum eigendum bankanna og eigendum aflandskróna og dregin upp mynd af 1.000 milljarða útstreymi frá landinu við afnám haftanna. Enginn vissi í raun hver ætti þessa peninga eða hvort þeir færu, kannski ætti að taka snúning á þeim. Hvort hugsanlega væri um samskonar hræðsluáróður að ræða vegna 1.000 milljarðanna og stundaður var vegna Icesave III málsins að Íslendingar yrðu eins og holdsveikir meðal þjóða ef þeir felldu samninginn. Góðu heilli hefði það verið gert án þess að hrakspárnar rættust. Sjálfstæðisflokkurinn yrði að móta trúverðuga leið frá höftunum og hafa leiðtoga sem gæti sameinað nógu breiðan hóp svo að leiðin verði farin.