8.4.2012

Sunnudagur 08. 04. 12

Gleðilega páska!

Það var gott framtak hjá sjónvarpinu að sýna myndirnar 79 af stöðinni  og Mamma Gógó nú um páskana. Um 50 ár eru á milli þess sem myndirnar eru gerðar.  Tækninni hefur fleygt fram en gildið felst í leikstjórn og leik. Hvorugt bregst.  Þá eykst sögulegt og listrænt gildi við að unnt er að tengja myndirnar  með hinum frábæru leikurum Kristbjörgu Kjeld og Gunnari Eyjólfssyni. Friðriki Þór fellir myndirnar saman á einstakan hátt.

Klukkan 13.00 fórum við í messu í Krosskirkju í Landeyjum þar sem séra Önundur Björnsson predikaði. Þarna er staðarlegt, skammt frá ströndinni.  Kirkjan var byggð árið 1850. Altaristaflan er að minnsta kosti frá 1650.  Kirkjan er með elstu timburkirkjum landsins og einnig altaristaflan, sagan segir að hún sé til marks um þakklæti þeirra sem björguðust í Vestmannaeyjum þegar Tyrkir fóru þar um rænandi og ruplandi 1627.