18.4.2012 22:20

Miðvikudagur 18. 04. 12

Í dag ræddi ég við Elínu Hirst sjónvarpskonu í þætti mínum á ÍNN. Ég spurði hana um vangaveltur hennar um forsetaframboð og við ræddum störf hennar á líðandi stundu sem lúta að mannúðarmálum.

Ákvörðun yfirstjórnar RÚV um að reka Elínu fyrirvaralaust úr starfi þegar hún var að búa sig undir útsendingu er eitt af dæmum samtímasögunnar um dæmalausan hroka yfirstjórnar RÚV.

Nú hefur Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi ákveðið að láta reyna á stjórnsýslukæruferli vegna framgöngu stjórnenda RÚV. Í lok mars sendi Ástþór fyrirspurn til fjölmiðlanefndar sem starfar undir handarjaðri menntamálaráðuneytisins um nokkur atriði sem snerta meðal annars óhlutdrægni formanns stjórnar RÚV, Bjargar Evu Erlendsdóttur, og umræðustjóra RÚV, Egils Helgasonar. Nefndin hefur ekki svarað Ástþóri og hefur hann því kvartað til umboðsmanns alþingis og óskað eftir að umboðsmaður svari hvort hlutverk fjölmiðlanefndar sé ekki að gæta þess að fjölmiðlar veiti óhlutdrægar upplýsingar.

Hvað sem mönnum finnst um tilefni Ástþórs ber opinberum aðilum að svara erindum hans með rökstuðningi. Þær fréttir berast úr höfuðstöðvum RÚV í Efstaleiti að þar telji menn sig ekki falla undir lögsögu umboðsmanns alþingis. Það sé í raun ekki unnt að ná í skottið á þeim eins og öðrum opinberum stofnunum eftir að RÚV fékk ohf. fyrir aftan nafn sitt. Ef fjölmiðlanefnd svarar ekki erindum sem snerta RÚV og umboðsmaður alþingis telur sig skorta umboð til afskipta af stjórnarháttum RÚV er greinilega alvarlegur galli á lögunum um RÚV.

Sú skoðun stjórnenda RÚV að þeir þurfi ekki að lúta agavaldi æðra stjórnvalds kann að skýra hvers vegna derringurinn er svona mikill í viðbrögðunum þegar að stjórnarháttum innan RÚV er fundið.