7.4.2012 19:10

Laugardagur 07. 04. 12

Gegnsæi er lykilorð þeirra sem segjast berjast gegn spillingu. Helsta aðferð þeirra sem vilja ekki gegnsæi er að beina spjótum að þeim sem leggja spilin á borðið. Evrópuvaktin hefur fylgt kröfu alþingis um uppgjör vegna styrks frá þinginu út í ystu æsar. Þetta hefur kallað á undarleg viðbrögð, ekki síst á Smugunni, vefmálgagni VG, og DV, að baki þessum miðlum er sami fjárhagslegi bakhjarl Lilja Skaftadóttir, listaverkasali í Frakklandi.

Vefmiðillinn Eyjan sem haldið er úti af Birni Inga Hrafnssyni hefur lagt Smugunni og DV lið í viðleitninni til að gera lítið úr gildi þess og jafnvel hæðast að því að Evrópuvaktin hefur gert nákvæma grein fyrir ráðstöfun styrkfjárins frá alþingi.

Athygli vekur að þessir miðlar ganga ekki á eftir upplýsingum um hvernig Já, Ísland sem fékk 13.5 m.kr. styrk og Heimssýn sem fékk 9 m. kr. styrk frá alþingi hafa varið þeim fjármunum. Hvað veldur? Halda miðlarnir að sparðatíningur þeirra vegna Evrópuvaktarinnar auki líkur á að hinir stóru styrkþegar sýni sömu nákvæmni og Evrópuvaktin?

Það er til lítils að krefjast þess í öðru orðinu að menn sýni nákvæmni í útlistun sinni á því hvernig farið er með fé sem veitt er af hinu opinbera og veitast síðan að þeim sem gæta þessarar nákvæmni. Hræsni er orð sem tekur til þessa háttalags.