17.4.2012 22:25

Þriðjudagur 17. 04. 12

Í fréttum frá alþingi er sagt frá ræðu Árna Páls Árnasonar, fyrrverandi efnahagsmálaráðherra, og Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefðu lýst andstöðu við þingsályktunartillögu  ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarráði Íslands. Mér finnst ekki seinna vænna en einhverjir stjórnarliðar snúist gegn þessari vitleysu Jóhönnu Sigurðardóttur. Eyðileggingarstarf hennar innan stjórnarráðsins er með ólíkindum. Að henni skuli hafa tekist að eyðileggja dóms- og kirkjumálaráðuneytið er til marks um ótrúlegt virðingarleysi við sögu og hefðir stjórnarráðsins.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður framsóknarmanna, vakti máls á því í þingumræðum í dag að sameining ráðuneyta félli að kröfu Evrópusambandsins, væri hluti af aðlögunarferlinu. Steingrímur J. Sigfússon brást við af hefðbundnum ofsa og á mbl.is  er haft eftir honum:

 „Varðandi breytingar innan stjórnarráðsins á Íslandi og Evrópusambandið þá kemur það því máli bara ekki nokkurn skapaðan hlut við og ég hef aldrei nokkurn tímann heyrt á það minnst að þeir skiptu sér af því. Enda kæmi það þeim ekkert við hvort sem er. Við erum að endurskipuleggja okkar stjórnarráð og móta framtíðaráherslur um skipan þess og það er alfarið okkar mál. Það getur enginn sýnt fram á að það komi neinum öðrum við né að það hafi verið svoleiðis. Ég þekki ekki til þess. Enda myndi það engu máli skipta, ekki neinu. Við gerum það sem við viljum í þessum efnum, við ráðum því sjálf. Að sjálfsögðu. Hvers konar kjaftæði er þetta? Þetta er svo barnaleg þvæla þegar menn eru komnir út í svona rugl.“

Álfheiður Ingadóttir, sem stýrði þingfundinum á Alþingi, sá sig knúna að lokinni ræðu Steingríms að biðja hann að gæta orða sinna: „Forseti vill biðja menn að gæta hófs í orðum sínum hér í ræðustól alþingis.“

Þráðurinn styttist stöðugt í Steingrími J. Sigfússyni. Upphlaup af þessu tagi til að þagga niður í þingmönnum setja æ meiri svip á ræður hans. Á dögunum sagði hann formanni Framsóknarflokksins að þegja þegar hann spurði um ferðir Steingríms J. til Brussel.

Leynimakkið vegna aðlögunarinnar að ESB er líftaug ríkisstjórnarinnar. Komi sannleikurinn í ljós springur stjórnin. Þegar litið er á breytingu á stjórnarráðinu er eitt víst: Jóhanna hefði aldrei ráðist í hana ef ESB hefði lagst gegn henni.