22.4.2012 21:05

Sunnudagur 22. 04. 12

Mótettukórinn, hljómsveit og einsöngvarar fluttu messu og sálumessu eftir Mozart undir stjórn Harðar Áskelssonar í Hallgrímskirkju í dag við mikinn og verðskuldaðan fögnuð áheyrenda sem fylltu hina stóru kirkju. Uppselt var á tvenna tónleika sem sannar enn og aftur áhuga Íslendinga á góðri klassískri tónlist. Í upphafi voru gestir ávarpaðir á íslensku og ensku sem minnti á hve Hallgrímskirkja hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Við höfum hreinsað í götunni hér í kringum okkar og holtinu fyrir ofan. Á morgungöngu í dag hitti ég dugnaðarkonur með svarta poka sem tóku þátt í hreinsunarátakinu. Þeim virtist ekki ljóst að þær gátu hringt í Reykjavíkurborg og óskað eftir að pokarnir yrðu sóttir.

Við vorum sammála um að Háskólinn í Reykjavík sem fékk lóð í Vatnsmýrinni  á viðkvæmum stað milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar ætti að sjá sóma sinn í því að hreinsa plast og pappír rótum Öskjuhlíðarinnar. Reykingamenn gætu til dæmis dundað sér við það í stað þess að norpa í skjóli trjáa. Takið eftir hve tómir sígarettupakka auka víða á sóðaskapinn.

Ég hef aldrei skilið að ekki séu rusladallar utan dyra við Perluna. Finnst mönnum nær að fólk kasti frá sér drasli á stéttina, bílastæðin eða grasflötina. Göngubraut er beint frá Litluhlíð upp að Perlu. Það er ótrúlegt að ekki skuli gengið frá henni á mannsæmandi hátt og búið þannig um hnúta að fólk þurfi ekki að vaða aurinn í rigningu. Þúsundir ferðamanna ganga upp þennan hálfgerða stíg.

Loks skora ég á stjórnendur Hlíðaskóla og Menntaskólans við Hamrahlíð að fara að fordæmi Hagaskóla og fela nemendum að hreinsa í kringum skólana, það hefur bæði fræðslu- og uppeldisgildi.