6.4.2012 18:30

Föstudagur 06. 04. 12

Samtal mitt við dr. Pétur Pétursson guðfræðiprófessor á ÍNN er komið á netið eins og sjá má hér.

Við Pétur ræðum um páskana og sérstaklega upprisuna. Við minnumst þess að frá fyrsta degi mannvistar á Íslandi hefur kristni komið við sögu eins og minjar um keltneska einsetumenn sýna. Í skjaldarmerkinu eru landvættir, tákn guðspjallamannanna fjögurra og krossinn í fánanum er einnig trúarlegt tákn og minnir á krossfestinguna og gildi hennar fyrir kristna menn.

Helgi föstudagsins langa er mikil. Í kirkjum landsins koma menn saman til að hlusta á Passíusálma Hallgríms Péturssonar, hinn einstaka menningararf innblásinn af trú. Könnun í Danmörku sýnir að þar telja menn föstudaginn langa helgasta daginn.

Það er dæmigert fyrir neikvæða athyglisþörf félaga í Vantrú að þeir skuli auglýsa bingó á Austurvelli föstudaginn langa. Hvenær ætli þeir krefjist breytinga á skjaldarmerkinu og fánanum?