13.4.2012 22:41

Föstudagur 13. 04. 12

Óli Kristján Ármannsson skrifar leiðara í Fréttblaðið í dag um deilurnar sem hafa sprottið vegna afskipta ESB af Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Óli Kristján var einn ákafasti talsmaður Icesave-stefnu ríkisstjórnarinnar á sínum tíma og spáði öllu illu ef hún næði ekki fram að ganga. Nú tekur Óli Kristján málstað framkvæmdastjórnar ESB og segir „kynlegt að þeir sem hæst töluðu um sterka lagalega stöðu landsins og börðust fyrir dómstólaleið með Icesave-deiluna bregðist nú ókvæða við þegar ESB, sem sannarlega hefur hagsmuna að gæta í málinu, lætur það sig varða með beinum hætti.“

Þessi fullyrðing er ekki alls kostar rétt. Þeir sem hafa kveðið fastast til orða vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnar ESB eru VG-ráðherrarnir Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon sem báðir studdu Icesave III eins og Óli Kristján og Fréttablaðið. Ráðherrarnir hafa báðir harðlega gagnrýnt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og sagt hana spilla fyrir aðildarviðræðunum. Varla kallar Óli Kristján ráðherrana fulltrúa „óttasleginna hagsmunahópa“ sem vilja bregða fæti fyrir ESB-viðræðurnar?

Staðreynd er að ekkert gengur ESB-viðræðunum í haginn um þessar mundir. Að halda þeim áfram nú eins og ekkert hafi í skorist spillir líklega mest fyrir viðræðunum í huga Íslendinga. Þráhyggja Jóhönnu Sigurðardóttir eyðileggur að lokum málstað ESB-aðildarsinna eins og hún hefur eyðilagt málstað þeirra sem vilja breyta stjórnarskránni. Hún verður einnig til þess að ríkisstjórnin nær ekki fram neinni markverðri breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða.

Ég skrifaði í dag um niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins um fylgi forsetaframbjóðenda á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Forvitnilegt verður að sjá hvað Ólafur Ragnar gerir til að ná fyrra forskoti. Fleira getur auðveldlega snúist í höndunum á honum en ákvörðun hans um að bjóða sig enn einu sinni fram í forsetaembættið.  Hann hefur ekki efni á því að honum bregðist bogalistin.

Fréttatíminn kemur endrum og eins fyrir sjónar mínar. Ég sakna einskis þótt honum sé ekki troðið inn um bréfalúguna. Tilgangur útgáfunnar virðist ekki annar en hala inn auglýsingatekjur og birta dálítið efni til uppfyllingar. Efnistök og umbrot bæta engu við íslenska fjölmiðlaflóru.