4.4.2012 21:30

Miðvikudagur 04. 04. 12

Í dag ræddi ég við dr. Pétur Pétursson guðfræðiprófessor á ÍNN í tilefni af páskunum og fjölluðum við einkum um upprisuna. Þáttinn má sjá klukkan 22.00, 24.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Birting á tölum um hvernig Evrópuvaktin hefur nýtt 4,5 m. kr. styrkinn frá alþingi hefur vakið nokkrar umræður og að lokum hefur athyglin beinst að því að ég kom heim frá Frankfurt eftir fjögurra vikna ferðalag með yfirvigt sem þurfti að greiða 30.000 kr. fyrir að flytja til landsins. Ég undraðist hve mikið kostaði að flytja aukakílóin sem höfðu bæst í töskurnar á ferðalaginu en þó varð ég enn meira undrandi þegar ég sá bloggara og málgagn VG Smuguna taka til við að þrasa um að styrkurinn hefði runnið til greiðslu á þessum kostnaði eins og öðrum vegna ferðarinnar frá 11. október til 11. nóvember. Heildarkostnaðurinn var um 900 þúsund krónur eða um 30.000 kr. á dag með ferðum og húsnæði. Sé það talið ofrausn á ferð þar sem rætt var við milli 40 og 50 manns skora ég á gagnrýnendur að benda á ódýrari leið til þess.

Það er í raun með ólíkindum hve ESB-aðildarsinnar hafa varið miklum tíma og kröftum í viðleitni sinni til að gera 4,5 m. kr. styrkveitingu alþingis til Evrópuvaktarinnar tortryggilega og loks til að einskorða þrasið við 30.000 kr. greiðslu vegna yfirvigtar. Þegar minnst er á milljarða kostnað við aðildarumsóknina sjálfa lætur þetta sama fólk hins vegar eins og ekkert sé sjálfsagðara en að leggja þær byrðar á skattgreiðendur þótt meirihluti þeirra sé andvígur aðildarbröltinu.

Lesendur Evrópuvaktarinnar vita að þar er annars vegar lögð áhersla á að miðla fréttum af því sem gerist á vettvangi ESB og hins vegar á að mótmæla aðildarstefnu ríkisstjórnarinnar. Hefur verulega áunnist í því efni og þess vegna liggur vefsíðan undir þessum árásum ESB-aðildarsinna fyrir að hafa fengið styrk frá alþingi og nýtt hann. Einkennilegt er að ráðist sé á þennan hátt á þann, sem fær styrk samkvæmt umsókn sem metin er hæf, og fullnægir síðan öllum kröfum styrkveitanda.  Hver er tilgangurinn? Svarið er einfalt: að hræða styrkveitanda frá því að veita Evrópuvaktinni styrk að nýju. Um það snýst málið, ekki síst af hálfu þeirra sem vita að þeir yrðu aldrei gjaldgengir gagnvart úthlutunarnefndinni.