2.2.2014 18:10

Sunnudagur  02. 02. 14

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er sagt frá því að í allri Evrópu sé tölvu- og netnotkun mest á Íslandi: 95% íbúa landsins teljast til reglulegra netnotenda, en meðaltalið í löndum Evrópusambandsins er 72% segir í nýrri skýrslu Hagstofu Íslands um netnotkun. Í blaðinu segir einnig að árið 1995 hafi um 5.000 Íslendingar haft aðgang að netinu og þá hafi aðeins 3.000 þeirra verið virkir. Fram kemur að um þetta leyti hafi stöku greinar birst „um þessa nýju tilveru“ í dagblöðum og tímaritum.

Blaðamaður Morgunblaðsins hefði í þessu sambandi getað vitnað í grein í Morgunblaðinu frá 12. maí 1995 þar sem Guðrún Helgadóttir, rithöfundar og alþingismaður, harmar að ég hafi kynnt til sögunnar netfang mitt bjorn@centrum.is og boðið fólki að hafa við mig milliliðalaus samskipti með aðstoð tölvu og mótalds. Grein Guðrúnar er klassískt dæmi um ótta við tækniframfarir. Greinina má nálgast hér: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=127391&pageId=1829640&lang=is&q=Gu%F0r%FAn%20Helgad%F3ttir

Svar mitt við grein Guðrúnar er unnt að nálgast hér á vefsíðu minni. Vefsíðan er einmitt 19 ára um þessar mundir. Geti ekki einhver bent á annað leyfi ég mér að fullyrða að síðan www.bjorn.is sé eina vefsíðan hér á landi og þótt víðar sé leitað sem haldið hefur verið úti samfellt allar götur frá þessum fyrstu dögum upplýsingatækninnar. Síðan bjorn.is er til dæmis þremur árum eldri en mbl.is mest sótta síða landsins sem kom ekki til sögunnar fyrr en um þetta leyti árið 1998.

Vefsíðan www.bjorn.is var valin besti einstaklingsvefurinn 29. október 2003 af íslensku vefakademíunni á grundvelli 10.000 tilnefninga. Á síðunni  er að finna greinar og ræður auk pistla. Póstlisti með mörg hundruð nöfnum hefur orðið til í kringum síðuna. Umsjón með síðunni var í höndum Miðheima og síðan Íslensku vefstofunnar, en í nóvember 2002 hóf ég samstarf við Hugsmiðjuna þar sem síðan er enn hýst og nota ég kerfið Eplica.