13.5.1995

Guðrún og framfarirnar

Grein í Morgunblaðinu 13. maí, 1995



 



 



Sagan geymir fjölmörg dæmi um að menn hafi verið úthrópaðir fyrir að fara inn á nýjar brautir eða nýta sér tæknina. Klassískt dæmi úr Íslandssögunni eru mótmæli gegn símanum á sínum tíma. Grein Guðrúnar Helgadóttur, fyrrverandi alþingismanns, í Morgunblaðinu 12. maí minnti mig á slík viðbrögð.



Um nokkurra mánaða skeið hef ég nýtt mér tölvutæknina til samskipta við þá, sem eru á upplýsingahraðbrautinni svonefndu. Hef ég meðal annars eigin heimasíðu á veraldarvefnum fyrir tilstilli Miðheima (centrum.is). Þar hef ég bæði birt greinar og fréttir. Fyrir nokkrum dögum lét ég þess getið í frétt á heimasíðunni, að auðveldasta samskiptaleiðin við mig væri að senda tölvupóst. Hefur því verið vel tekið á upplýsingahraðbrautinni, eins og bréfin þar sýna.



Morgunblaðið sagði í frétt frá því, sem ég hafði skrifað á heimasíðuna. Guðrún Helgadóttir kýs að túlka þá frétt eins og ekki sé unnt að ná sambandi við mig nema fyrir tilstilli tölvu. Það er mikill misskilningur eins og fjölmargir viðmælendur mínir geta staðfest. Sú staðreynd breytir ekki hinu að samskipti með tölvu eru bæði hraðvirk og örugg.



Ég kvarta síður en svo undan því, að margir telji sig eiga erindi við menntamálaráðherra. Vil ég hitta sem flesta og eiga við þá góð samskipti. Vegna tækninnar býð ég mönnum nýja leið til slíkra samskipta. Fréttir og blaðaskrif vegna þess finnast mér í raun tímaskekkja. Líklega var á sínum tíma fjargviðrast yfir því, að menn notuðu síma til að eiga samskipti en hættu að hittast eða senda hver öðrum handskrifuð bréf.



Í lokin vil ég þakka Guðrúnu Helgadóttur ánægjuleg samskipti á Alþingi, þar sem við vorum sessunautar á tveimur þingum. Ég skemmti mér ágætlega, þótt ég teldi ekki við hæfi að ástunda miklar samræður eða gamansemi undir ræðum manna. Ég fullvissa Guðrúnu um að hún getur auðveldlega náð sambandi við mig, þótt hún eigi ekki mótald eða hætti sér ekki út á upplýsingahraðbrautina.