18.2.2014 21:30

Þriðjudagur 18. 02. 14

Í dag var efnt til fundar í Norræna húsinu sem markar nokkur tímamót í varnarsamstarfi Norðurlandanna. Þar töluðu Arto Räty, ráðuneytisstjóri finnska varnarmálaráðuneytisins, Veronika Wand-Danielsson, sendiherra Svíþjóðar hjá NATO, Morten-Haga Lunde, hershöfðingi, yfirmaður stjórnstöðvar norska heraflans, og Robert G. Bell, varnarmálaráðgjafi sendiherra Bandaríkjanna hjá NATO.

Ræðumennirnir komu hingað til lands vegna æfinga flugherja Norðmanna, Finna og Svía á Keflavíkurflugvelli þar sem eru nú tæplega 20 orrustuþotur, eldneytisflugvélar og tvær finnskar þyrlur. Í fyrsta sinn gefst flugherjum Norðurlanda tækifæri til að æfa saman frá sama flugvelli og eftir handbók og reglum NATO.

Í raun var ótrúlegt fyrir okkur sem munum umræður frá kalda stríðsárum og sátum fundi og ráðstefnur með opinberum fulltrúum Finna og Svía að hlusta á ræðurnar í dag, einkum sænska sendiherrans um samstarfið við NATO, mikilvægi þess fyrir Svía og áhuga á að á leiðtogafundi NATO í Wales í september nk. yrði mælt fyrir um nánara samstarf við ríki utan NATO.

Bell er í hópi hæst settu bandarísku embættismanna sem talað hafa á opinberum fundi hér á landi síðan varnarliðið fór. Þegar hann var spurður um það efni sagðist hann hafa starfað í Hvíta húsinu árið 1999 hjá Bill Clinton og þá hefðu þeir viljað hafa orrustuþoturnar áfram hér á landi. Fór ekki á milli mála hvernig átti að skilja þau orð en hann minnti á að varnarsamningurinn væri í gildi og hann tryggði öryggi Íslands.