21.2.2014 23:30

Föstudagur 21. 02. 14

Sögulegur dagur í stjórnmálum er að kvöldi kominn.

Í fyrsta lagi var sagt frá bréfi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra sem dagsett var miðvikudaginn 19. febrúar um að auglýsa ætti embætti seðlabankastjóra eftir sex mánuði. Már tók tilkynningunni á þann veg að hann ætlaði að óbreyttu að sækja um embættið að nýju.

Fyrir sex árum ákvað ég með sex mánaða fyrirvara að auglýsa embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og olli það miklu uppnámi hjá sitjandi lögreglustjóra sem taldi ákvörðunina beint gegn sér. Hið sama gerðist fyrir skömmu þegar Páli Magnússyni útvarpsstjóra var sagt að auglýsa ætti embætti hans. Páll sagði strax af sér. Már tekur tilkynningu um auglýsinguna á allt annan veg. Hann segist ekki á förum.

Í öðru lagi samþykktu stjórnarflokkarnir að leggja fram tillögu til þingsályktunar um að afturkalla ESB-aðildarumsóknina. Eftir þessu hef ég beðið frá því að ríkisstjórnin var mynduð ekki síður en ákvörðun varðandi breytingar á yfirstjórn seðlabankans.

Að hætta aðildarviðræðunum á formlegan hátt fellur að stefnu beggja stjórnarflokkanna. Ég botna satt að segja ekkert í minnihluta sjálfstæðismanna sem sætta sig alls ekki við ákvörðun meirihlutans í málinu og velja þá leið að vega sérstaklega að formanni flokksins eins og hann hafi gefið þeim eitthvert persónulegt loforð sem falli ekki að samþykkt landsfundar flokksins.

Bjarni Benediktsson skýrði afstöðu meirihluta sjálfstæðismanna vel í Spegli ríkisútvarpsins í kvöld og svaraði spurningum vel og málefnalega. Áreitnisleysi hans var í hróplegri andstöðu við hina málefnasnauðu gagnrýni sem hann og Sjálfstæðisflokkurinn sæta.