20.2.2014 23:10

Fimmtudagur 20. 02. 14

Starfsemi Miðaldastofu Háskóla Íslands er blómleg og í vetur gengst hún meðal annars fyrir fyrirlestraröð um klausturmenningu á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum. Í dag flutti Haki Antonsson sagnfræðingur og dósent í norrænum miðaldafræðum við University College London erindi um Benediktínamunkana í Þingeyraklaustri og fyrstu sagnaritarana. Haki fæst einkum við rannsóknir á sögu og bókmenntum Norðurlanda á tólftu og þrettándu öld.

Áhuginn á þessum fyrirlestrum er mikill. Má segja að færri komist í sætin í fyrirlestrasalnum en vilja. Þessi starfsemi fellur vel að stefnu ríkisstjórnarinnar sem lýst er á þennan veg í stefnuyfirlýsingu hennar:

„Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan.“

Margrét Hallgrímsdóttir tók í byrjun árs leyfi í eitt ár frá embætti þjóðminjavarðar til að vinna í forsætisráðuneytinu að því að koma þar á fót skrifstofu menningararfs í samræmi við þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum.

Í dag fékk ég tækifæri til að kynnast æfingu Norðmanna, Finna og Svía á Keflavíkurflugvelli sem lýkur nú í vikulokin. Um 300 manns, 18 orrustuþotur, tvær þyrlur og eldsneytisvélar auk landfarartækja og skips í Helguvík sem flutti búnað, ökutæki og tvær finnskar NH90 þyrlur. Samhliða var um tvær aðgerðir að ræða: æfingu flugherja landanna þriggja og loftrýmisgæslu Norðmanna. Allt fór þetta fram eftir NATO stöðlum en lykillinn að því að æfingin gekk eins og í sögu var að allir störfuðu samkvæmt þessum stöðlum. Áhætta var tekin með því að velja þennan árstíma en veðrið var einstaklega gott allan tímann fyrir utan einn dag.

Fréttir bárust af truflun við norðanverðan Breiðafjörð vegna flugs orrustuþotna. Þær voru þar í 20.000 feta hæð!