Þriðjudagur 11. 02. 14
Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur sendi frá sér bók undir lok síðasta árs, endurminningar og lýsingar á stjórnmálastarfi sínu og skoðunum. Frá því að Ragnar kom frá námi í Svíþjóð 1966 þar sem hann heillaðist af baráttuhópum gegn Víetnamstríðinu hefur hann samhliða starfi sínu sem jarðskjálftafræðingur helgað sig því sem hann kallar grasrótarstarf. Undir orðið „grasrótarstarf“ í sögu Ragnars fellur allt frá því að starfa í Fylkingunni með kenningar Trotskís um hið eilífa byltingarstarf að leiðarljósi til þess að starfa í samtökunum Landsbyggðin lifir. Ragnar barðist meðal annars fyrir friði með því efna til aðgerða sem kölluðu á viðbrögð lögreglunnar hann var dæmdur fyrir aðild að tilraun til að kveikja í bandarískum herbragga í Hvalfirði.
Nú starfar enginn lengur undir merkjum Trotskís. Þeir sem telja sig starfa í grasrótinni velja sér annan vettvang og má þar til dæmis nefna samtökin No Borders. Á vefsíðu þessara samtaka hér á landi segir að hugsjón þeirra sé „að afnema landamæri og landamæraeftirlit“ sem þau „álíta í eðli sínu ofbeldisfull fyrirbæri sem stuðla að mannréttindabrotum, arðráni og stríðsrekstri alls staðar í heiminum“.
Félagar í No Borders vinna þó einkum að málefnum flóttamanna og óskráðra farandverkamanna, enda eru þeir þá „augljósustu og varnarlausustu fórnarlömb landamæraeftirlits“. Allar aðferðir eru nothæfar í starfi No Bordes ef „þær eyðileggja ekki fyrir málstaðnum“, No Borders er oft í samstarfi við aðra hópa, svo sem anarkista eða hústökufólk. Þeir sem þarna eru kallaðir „óskráðir farandverkamenn“ eru almennt nefndir „ólöglegir innflytjendur“ sem velja oft þann kost að gerast hælisleitendur.
Þegar litið er á baráttuaðferðir félaga í No Borders berjast þeir ekki síður gegn yfirvöldunum en landamærum. Þeir standa núna í fremstu röð í baráttunni gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um þessar mundir. Hið sérkennilega við „lekamálið“ svonefnda er að tekist hefur að beina athygli frá „fórnarlambi landamæraeftirlitsins“ að innanríkisráðuneytinu og ráðherra þess. Tilgangurinn er grafa undan trúverðugleika þeirra sem lögum samkvæmt ber að fjalla um þá sem sækja hér um hæli en í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur fjölgaði þeim mikið. Einn af forystumönnum No Borders er blaðamaður á DV og hefur þar aðstöðu til að halda lífi í starfsemi samtakanna með baráttu undir merkjum þeirra.