12.2.2014 22:02

Miðvikudagur 12. 02. 14

Í dag ræddi ég við Björn Bjarka Þorsteinsson, formann byggðaráðs Borgarbyggðar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um málefni sveitarfélagsins og menntastofnana innan marka þess. Þátturinn er næst á dagskrá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Í dag efndu nokkur samtök til mótmæla gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við ráðuneyti hennar. Á ruv.is sagði að þarna hefðu verið 30 manns. Mesta kynningin á mótmælunum var á dv.is og dró ég þá ályktun að þar héldi á málum einn af forystumönnum samtakanna No Borders eins og ég sagði hér í gær. Ég fékk strax í gærkvöldi tölvubréf um að þessu yrði illa tekið á DV og reyndist sú spá rétt.

Reynir Traustason ritstjóri sendi mér tölvubréf snemma í morgun og sagði:

„Sæll Björn. 

Vegna yfirlýsinga þinna um að blaðamaður DV sé forsvarsmaður í No Borders-samtökunum fer ég fram á að þú upplýsir við hvern þú átt. Eftirfarandi er skrifað á heimasíðu þína: Einn af forystumönnum No Borders er blaðamaður á DV og hefur þar aðstöðu til að halda lífi í starfsemi samtakanna með baráttu undir merkjum þeirra.“

Þarna er á ferðinni gróf ásökun á hendur DV um að blaðamenn starfi ekki af heilindum og hafi þar með gildi góðrar blaðamennsku að leiðarljósi.

Svar þitt mun ráða frekari framvindu þessa máls.“

Ég svaraði:

„Sæll Reynir,

viðbrögðin koma mér ekki á óvart þar sem menn vilja starfa nafnlaust innan samtakanna. Ég tel ekki um neina ásökun að ræða, þetta eru samtök sem berjast fyrir opnum tjöldum eins og fram kemur á dv.is þar sem boðaður er fundur í nafni þeirra og vísað á vefsíðu. Bréf þitt staðfestir aðeins hve málið er viðkvæmt fyrir DV. Ef enginn á blaðinu vill kannast við að starfa innan No Borders nær það ekki lengra. Ég vék hvergi að heilindum eða góðri blaðamennsku heldur að starfsemi No Borders og dró þá ályktun að forystumaður í samtökunum segði frá starfsemi þeirra á DV, sé málstað samtakanna haldið fram í blaðinu án þess að blaðamaður sé í forystu var ályktun mín um það efni röng. Miðað við þær fréttir sem DV hefur birt finnst mér langsótt að saka mig um "grófa ásökun" með því að draga af þeim ályktun. Viltu takmarka skoðana- og málfrelsi mitt? Vinsamlega fullvissaðu mig um að engin tengsl séu á milli No Borders og DV. Svar þitt mun ráða frekari skrifum mínum um málið.“

Þá fékk ég þetta svar:

„Sæll aftur Björn og takk fyrir svarið. Þú munt heyra frá okkur í framhaldinu. Tel að í orðum þínum felist gróf ásökun um að ritstjórn DV gangi erinda annarra. Lögmaður DV fær afrit af póstinum. 

rt“

Afrit sendi ritstjórinn til Katrínar Smára Ólafsdóttur, lögmanns síns.

Ég svaraði:

"hvar sagði ég DV „ganga erinda annarra“? Ég dró ályktun af fréttaflutningi blaðsins sem fellur saman við baráttu sem kynnt er á vefsíðu No Borders-samtakanna. Að segja það fela í sér „grófa ásökun“ um að ganga erinda annarra  og vísa því til lögmanns  sýnir meiri viðkvæmni en áður hjá þér – hvers vegna? Dagblöð eru alltaf að segja frá skoðunum og viðhorfum annarra – jafngildir það að ganga erinda þeirra? Þú ert viðkvæmari núna en þegar fluttir fréttirnar af Baugsmönnum gegn DO á sínum tíma – varstu þá að ganga erinda einhverra? Ég áskil mér rétt til að skýra frá þessum bréfaskiptum opinberlega."


Nú bíð ég eftir að heyra frá lögfræðingnum í hverju hótun Reynis felst.