5.2.2014 22:30

Miðvikudagur 05. 02. 14

Á sínum tíma sótti ég Ólympíuleika í Atlanta og Sydney og sagði frá ferðunum þangað hér á síðunni. Ferðirnar eru ógleymanlegar en þær höfðu ekki pólitískan tilgang. Enginn efast um pólitískt eðli ferða þjóðhöfðingja og stjórnmálamanna á vetrarleikana í Sotsjí í Rússlandi sem settir verða föstudaginn 7. febrúar.

Í Rússlandi er litið á komu fyrirmenna sem virðingarvott við Vladimír Pútín forseta. Hann hefur lagt sig fram um að tengja leikana nafni sínu og hagar sér eins og yfirstjórnandi þeirra.

Lýðræðislegir stjórnmálamenn halda til Sotsjí og láta eins og för þeirra til Rússlands nýtist til að þoka stjórnmálum eða stjórnarháttum í Rússlandi til betri vegar. Það er ímyndun. Ræður um þetta eru ekki til annars en heimabrúks.