3.2.2014 22:40

Mánudagur 03. 02. 14

 

Í dag, sama dag og dr. Svanur Kristjánsson prófessor segir á Eyjunni að hann vilji sæma Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fálkaorðunni fyrir að lýsa áhrifaleysi sínu sem alþingismanns vegna EES-samningsins tilkynnir norska utanríkisráðuneytið að það hafi stofnað samstarfsnefnd með aðilum vinnumarkaðarins og samstarfsskrifstofu landshluta til að tryggja tímabæra viðvörun vegna ESB/EES-mála sem kunna að snerta norska hagsmuni. Markmiðið er að þeir sem málið snertir geti komið sem allra fyrst að ákvarðanaferlinu á vettvangi ESB.

Í Noregi hefur Vidar Helgesen, ráðherra EES-mála, hvatt til þess að Norðmenn auki varðstöðuna um eigin hagsmuni innan EES-samstarfsins. Hann talar um „pro-aktiva“ opna Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Hér hefur undanfarin fimm ár verið fylgt gagnstæðri stefnu þar sem stjórnvöld hafa látið allt frumkvæði í hendur ESB. Ríkisstjórn Íslands fékk tillögur um „pro-aktiva“ stefnu í mars 2007 en þeim var því miður aldrei hrundið í framkvæmd.

Ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar staðfestir enn það sem öllum hefur verið ljóst sem leggja sig fram um að kynna sér EES-samstarfið: EFTA-ríkin í EES eru ekki áhrifalaus um efni laga og reglna. Þau verða að sýna árvekni og beita sér á réttum tíma. Ríkisstjórn Íslands hefur því miður aldrei hrundið í framkvæmd markvissri stefnu um þetta og eftir bankaáfallið hefur hlutur íslenskra ráðuneyta við hagsmunagæslu í Brussel minnkað samhliða því sem utanríkisráðuneytið einbeitti sér að ESB-aðildarviðræðunum.