Fimmtudagur 06. 01. 14
Í gærkvöldi sýndi ríkissjónvarpið þátt frá BBC um aðdraganda vetrarólympíuleikanna í Sotsjí og hvernig leikarnir tengjast persónudýrkun á Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Í BBC í dag birtist meðal annars viðtal við Lilju Shevtsovu við Carnegie miðstöðina í Moskvu. Hún sagði:
„Rússnesku Olympíuleikarnir eru nú þegar hneyksli. Þeir eru tákn spillingar, slóðaskapar, óraunsæis, öfgafulls hégómleika og mikilmennskubrjálæðis. Þeir eru sóun á fé í landi sem getur ekki búið venjulegu fólki viðunandi lífskjör. Þeir minna mig á Mússólíni og Ceausescu. Þeir reistu einnig glæsimannvirki sem eru nú minnisvarðar um fáránleika.“
Það er sérkennilegt ef látið er eins og þátttaka annarra en íþróttamanna í þessu ógeðfellda sjónarspili sé ekki liður í að ýta undir hinn öfgafulla hégómleika Pútíns og mikilmennskubrjálæðið.
Enn minnast menn þess með óbragð í munni hvernig Ceausescu, einræðisherra í Rúmeníu, tókst að smeygja sér inn á æðstu staði í vestrænum ríkjum, meðal annars á Bessastaði, af því að hann lét eins og hann væri annars konar (og betri!) kommúnisti og einræðisherra en þeir sem sátu í Kreml.
Eftir að Ceausescu-hjónin voru skotin í beinni útsendingu um jólin kom í ljós hve svívirðilega þau höfðu níðst á þjóð sinni. Höllin risastóra sem þau reistu sér til dýrðar stendur enn í Búkarest sem tákn um tryllingslega sjálfsdýrkun þeirra.