25.2.2014 22:10

Þriðjudagur 25. 02. 14

Hugmyndaflugið sem stjórnarandstaðan beitir til að koma í veg fyrir efnislegar umræður um ESB-málefnin á alþingi  er í ætt við annað sem frá flokkunum hefur komið þegar kemur að kjarna ESB-umræðunnar og leitað er svara við spurningunni um hvaða erindi Íslendingar eigi inn í sambandið. Þá er alltaf farið undan í flæmingi, sumir segjast alls ekki vilja inn í sambandið þótt þeir hafi sótt um aðild að því og aðrir segjast ekki fara inn nema á sérkjörum. Enginn segist vilja ganga í ESB á skilyrðum sambandsins sjálfs sem þó er eini kosturinn í  boði. Það er í raun engin furða að þeir sem standa þannig að svo stóru og mikilvægu máli vilji forðast að ræða það.

Fyrir liggur að engar fullyrðingar um tímasetningar að baki ákvörðuninni um umsókn árið 2009 hafa staðist. Allt sem Össur Skarphéðinsson og Árni Páll Árnason sögðu um þann mikilvæga þátt málsins hefur reynst ósannindi. Um það þarf ekki að deila. Skyldi fréttastofa ríkisútvarpsins beina athygli að þessum þætti málsins í umfjöllun sinni í fréttum eða Kastljósi? Nei, ekki er á það minnst einu orði heldur er hver þátturinn og fréttatíminn eftir annan lagður undir hártoganir á orðum Bjarna Benediktssonar til að ýta undir mótmæli meðal þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum 2013, aðra getur hann ekki hafa „svikið“. Meira að segja getur starfsmaður fréttastofunnar ekki haldið aftur af sér þegar hann bregður sér í gervi leiklistargagnýnanda í Djöflaeyjunni.

Í Kastljósi kvöldsins hélt Sigmar Guðmundsson áfram að tuða um svik Bjarna og fékk dyggan stuðning frá Össuri Skarphéðinssyni sem lét eins og skýrsla sem út kom í mars árið 2007 hefði legið að baki ESB-umsókninni sumarið 2009. Þetta er fráleit kenning og stenst ekki skoðun frekar en svo margt annað sem Össur segir þessa dagana. Hann siglir hins vegar lygnan sjó hjá ESB-RÚV eins og hann hefur gert síðan hann gerðist ESB-strandkapteininn vorið 2009.