Laugardagur 15. 02. 14
Ókum suður til Reykjavíkur frá Þingeyrum í dag. Veður var gott og færð prýðileg.
Eins og lesendum síðu minnar er kunnugt sæti ég kröfu og hótunum frá Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, og lögmanni hans vegna orða sem ég lét falla um blaðamann á DV og samtökin No Borders hér á síðunni vegna „lekamálsins“. Nú hafa tveir blaðamenn DV Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson unnið verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2013. Viðurkenninguna fá þeir fyrir skrif sín um hælisleitendur.
Ég sagði; „Einn af forystumönnum No Borders er blaðamaður á DV og hefur þar aðstöðu til að halda lífi í starfsemi samtakanna með baráttu undir merkjum þeirra.“ Reynir sagði vegna þessara orða minna: „Þarna er á ferðinni gróf ásökun á hendur DV um að blaðamenn starfi ekki af heilindum og hafi þar með gildi góðrar blaðamennsku að leiðarljósi.“
Vegna verðlaunaveitingarinnar til Jóns Bjarka og Jóhanns Páls hóf ég rannsóknarblaðamennsku og spurði Google um þá. Hann svaraði til dæmis að Jón Bjarki hefði flutt ræðu á menningarnótt 19. ágúst 2011 fyrir framan Hegningarhúsið við Skólavörðustíg á fundi sem samtökun Attac og No Borders boðuðu um efnið: Önnur veröld er möguleg – Enginn er ólöglegur.
Íslandsdeild Attac var stofnuð 30. maí 2009. Hún er hluti alþjóðlegar hreyfingar fyrir lýðræðislegu eftirliti með fjármálamörkuðunum og stofnunum þeirra, segir á vefsíðu samtakanna. No Borders berst hins vegar í þágu hælisleitenda. Fyrir hvor samtökin skyldi Jón Bjarki hafa talað? Skyldi Reynir Traustason geta svarað því?
Hinn 2. maí 2013 birtist frétt á mbl.is þar sem sagt var að Jóhann Páll hefði búið til ýmsar síður á Facebook til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Þegar ég las fréttina minntist ég þess að hafa orðið fyrir áreiti af því tagi sem þar er lýst. Jóhann Páll harðneitaði þessum ásökunum. Tald hann vegið „gróflega“ að „starfsheiðri“ sínum. Jóhann Páll sagði:
„Ég fyrirlít Sjálfstæðisflokkinn en ég hef samt snefil af sómakennd og ég myndi ekki grípa til hvaða skítabragða sem er.“
Jóhann Páll sendi síðar mbl.is eftirfarandi athugasemd:
„Ég hljóp á mig þegar ég sagðist fyrirlíta Sjálfstæðisflokkinn og má til með að biðjast afsökunar á þeim ummælum. Ég fyrirlít ekki flokkinn og hvað þá alla sem starfa innan hans þótt ég sé ósammála ýmsu af því sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir.“
Jón Bjarki og Jóhann Páll hafa nú hlotið verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku. Þeir taka því almennt ekki vel þegar Google er spurður um þá. Google er öruggari heimildarmaður en Reynir Traustason.