4.2.2014 22:24

Þriðjudagur 04. 02. 14

Viðtal mitt á ÍNN við Margréti Friðriksdóttur, skólameistara og frambjóðanda í fyrsta sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kópavogi, er nú komið á netið eins og sjá má hér. Sjálfstæðismenn í Kópavogi ganga til prófskjörsins laugardaginn 8. febrúar. Fréttir úr Kópavogi benda til að harka hafi hlaupið í leikinn einkum hefur framganga Braga Michaelssonar, formanns kjörstjórnar, vakið athygli og í sjálfu sér er ekki undarlegt að sumum frambjóðendum hafi brugðið vegna ummæla sem hann lét falla um þá.

Í Kópavogi er tekist á um fyrsta sætið hjá sjálfstæðismönnum – kjósendur hafa lýðræðislegt val. Hið sama verður ekki sagt um flokksvalið sem fram fer hjá Samfylkingunni í Reykjavík í lok vikunnar. Þar er Dagur B. Eggertsson í framboði í fyrsta sæti án sérstaks andstæðings og hið sama má segja um Björk Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa sem gefur kost á sér í 2. sæti.

Þegar staðið er að prófkjöri án þess að aðrir en þeir sem fyrir sitja fái keppni um embætti bendir það annaðhvort til þess að viðkomandi séu óumdeildir í eigin röðum eða beitt hafi verið þrýstingi í bakvið tjöldin til að tryggja þeim frið á toppnum.  Hvorki Dagur B. né Björk eru óumdeild innan Samfylkingarinnar, það er því baktjaldamakk sem ræður að enginn býður sig fram gegn þeim.