1.2.2004

Heimastjórnarafmæli – Kammersveitarafmæli

 

Í dag hinn 1. febrúar 2004 eru 100 ár liðin frá því að Hannes Hafstein varð fyrsti íslenski ráðherrann, heimastjórnin kom til sögunnar ásamt Stjórnarráði Íslands og þingræði varð að meginreglu við stjórn landsins.

Í tilefni af deginum er ýmislegt til hátíðarbrigða. Ríkisstjórn kom saman til fundar 12 á hádegi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og var þar samþykkt að breyta ákvæðum í reglugerðinni um stjórnarráðið, færa hana til þess tíma, sem nú er, ef þannig má orða það. Ekki var ráðist í að flytja verkefni á milli ráðuneyta heldur uppfæra orðalag í ákvæðum um einstök ráðuneyti.

Reglugerðina ber lögum samkvæmt að staðfesta af forseta Íslands og að loknum fundi ríkisstjórnarinnar kom ríkisráðið saman og þar var hin nýja útgáfa reglugerðarinnar staðfest.

Vegna fjarveru Ólafs Ragnars Grímssonar, sem dvelst um þessar mundir í Bandaríkjunum, voru það handhafar forsetavalds, sem staðfestu reglugerðina. Komu þeir Halldór Blöndal, forseti alþingis, og Markús Sigurbjörnsson, forseti hæstaréttar, í Ráðherrabústaðnn og var haldinn ríkisráðsfundur þar klukkan 12.30 undir forsæti forseta alþingis svo sem venja er í þeim tilvikum, þegar forseti Íslands situr ekki ríkisráðsfundi.

Sagan geymir ýmis dæmi um að handhafar forsetavalds sitji ríkisráðsfundi. Í stjórnarráðssögunni, sem út kemur í dag, er til dæmis mynd frá því fyrir um það bil 40 árum, sem sýnir ríkisráðið undir forsæti Birgis Finnssonar, þáverandi forseta sameinaðs alþingis, en honum til vinstri handar situr Þórður Eyjólfsson, forseti hæstaréttar, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á hægri hönd Birgis.

Hvort þetta er í síðasta sinn þar til nú, að ríkisráðið kemur saman með handhöfum forsetavalds, skal ég ekki fullyrða. Er það þó talið líklegt. Varð ég var við það, að fjölmiðlamönnum þótti þetta nokkrum tíðindum sæta, sem er auðvitað rétt, þegar litið er til sögu ríkisráðsins og stjórnarráðsins.

Að loknum ríkisráðsfundinum fór ég í Þjóðmenningarhúsið, þar sem kom í minn hlut sem formanns ritstjórnar stjórnarráðssögunnar að setja og stýra athöfn, sem hófst klukkan 13.30, í tilefni af útgáfu tveggja af þremur bindum sögunnar, en þriðja bindið ætlum við að gefa út 17. júní á 60 ára afmæli lýðveldisins. Með því að lesa ræðu mína geta menn kynnst því, hvernig að störfum ritstjórnar og ritun sögunnar hefur verið staðið.

Heppnaðist þessi athöfn vel í hinni glæsilegu umgjörð, sem Þjóðmenningarhúisð er. Spillir ekki fyrir, hve það tengist stórhug heimastjórnaráranna og forystu Hannesar Hafsteins. Buðum við ríkisstjórn, ráðuneytisstjórum, Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, fyrrverandi ráðherrum og ráðuneytisstjórum, aðstandendum verksins auk þingmanna og fleiri gestum til athafnarinnar.

Síðastliðið föstudagskvöld var dagskrá í Þjóðleikhúsinu tengd heimastjórnarafmælinu, þar sem lýst var tíðaranda í upphafi síðustu aldar, flutt ljóð, brot úr leikritum og tónlist frá þeim tíma. Var þetta hin ánægjulegasta stund og vel til fundið að stofna til slíkrar kynningar á menningu þjóðarinnar fyrir um 100 árum.

Í kvöld er síðan hátíðardagskrá í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem Davíð Oddsson flytur erindi og flutt er tónlist. Verður sjónvarpað beint frá henni.

Kammersveitarafmæli

Í dag eru 30 ára afmælistónleikar Kammersveitar Reykjavíkur í Langholtskirkju. Hefjast þeir klukkan 17.00 undir stjórn Pauls Zukofskys, sem ég gat í síðasta pistli mínum. Ég vitnaði einnig til Pauls í ræðu, sem ég flutti á kjördæmisþingi reykvískra sjálfstæðismanna laugardaginn 31. janúar og heyrði að ýmsum fundarmönnum þótti hann lýsa Íslendingum ágætlega í þeim orðum, sem ég notaði.

Kammersveitin hefur í 30 ár verið einskonar heimilislisiðnaður hér hjá okkur Rut, því að hún hefur haft forystu fyrir sveitinni frá upphafi og öll verkefni hennar í 30 ár hafa á einn hátt eða annan runnið hér í gegnum heimili okkar. Er það sannarlega ævintýri líkast, hvernig til hefur tekist og hvaða árangur hefur náðst.

Leyfi ég mér að vitna í afmælisávarp Hjálmars H. Ragnarssonar, tónskálds og rektors Listaháskóla Íslands, sem birtist í dagskrá afmælistónleikanna. Þar segir:

„Núorðið er það afar sjaldgæft að starfsemi hljómsveitar sé eins samofin nafni ákveðins einstaklings og raunin er með Kammersveitina og Rut Ingólfsdóttur. Kapphlaupið um lífsgæðin ræður för og fáir tilbúnir til starfa nema á móti komi endurgjald sem vegur á móti því sem til er fórnað. Við vitum fullvel að það er ekki þrautalaust að keyra áfram stóran tónlistarhóp sem hefur ómældan metnað en enga trygga afkomu. Þetta hefur  þó Kammersveitinni tekist í þrjátíu ár, og er þar ekki síst fyrir að þakka eljusemi formannsins sem aldrei sefur.“