19.2.2014 22:55

Miðvikudagur 19. 02. 14

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Óla Björn Kárason um Má Guðmundsson seðlabankastjóra. Fimm ára skipunartími Más rennur út 20. ágúst 2014. Eigi að auglýsa stöðuna þarf að ákveða það núna með sex mánaða fyrirvara.  Óli Björn segir:

„Þegar sagan allt frá 2009 er höfð í huga er vandséð hvernig stjórnvöld komast hjá því að auglýsa stöðu seðlabankastjóra og stokka síðan upp spilin með nýjum lögum, þar sem m.a. er litið til sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.“

Áður en Óli Björn kemst að þessari niðurstöðu hefur hann rifjað upp ádeiluefni á Seðlabanka Íslands í stjórnartíð Más Guðmundssonar – sala eigna á vegum bankans hafi vakið „alvarlegar spurningar“, framkvæmd reglna um fjármagnshöftin hafi „falið í sér óþolandi mismunun“ og hávaxtastefna bankans hafi verið „harðlega gagnrýnd“, þá sé þáttur seðlabankans undir stjórn Más „sérstakur kafli“.

Þetta er hörð gagnrýni og heyrir sem betur fer til undantekninga að unnt sé að nefna dæmi sem þessi um starfsemi seðlabankans. Fyrir utan þetta hefur Már Guðmundsson sætt gagnrýni forsætisráðherra. Hið einkennilega er að hreyfi forsætisráðherra gagnrýnisorðum opinberlega um bankastjóra eða prófessora sætir hann ámæli eins og málfrelsi hans sé skert. Málum er auðvitað ekki þannig háttað.

Að ráðherrann svari fyrir gagnrýni eða láti í ljós aðra skoðun en seðlabankastjóri er ekki ámælisvert. Hitt er einkennilegra að fréttastofa ríkisútvarpsins skuli bera það undir Gylfa Zoëga sem á sæti í peningastefnunefnd seðlabankans hvort fjölga eigi seðlabankastjórum. Gylfi sér sína sæng uppreidda verði það gert, nefndin hans yrði lögð niður, auðvitað vill hann óbreytt ástand.