Laugardagur 22. 02. 14
Einkennilegt er að hlusta á forráðamenn úr atvinnulífinu segja að óvissa um afnám fjármagnshafta aukist við að afturkalla ESB-aðildarumsóknina. Þegar ESB-leiðangur Samfylkingarinnar hófst snemma árs 2009 var látið eins og á skömmum tíma mætti losna við höftin, bara að sótt yrði um aðild að ESB. Fimm árum síðar erum við í sömu sporum og þó verri því að höftin hafa skekkt viðskiptalífið í stjórnartíð Samfylkingarinnar og VG. Á þeim tíma sem liðinn er við ESB-viðræður hefur ekkert markvert gerst á þessu sviði í samskiptum ESB og Íslands.
Samfylkingarmenn létu alltaf eins og óhjákvæmilegt væri að bíða eftir ESB en VG vildi halda í höftin til að geta hlutast til um rekstur fyrirtækja. Seðlabanki Íslands hélt að sér höndum. Ríkisstjórn sem hvorki ætlar að bíða eftir ESB né lætur stjórnast af óvild VG í garð heilbrigðs atvinnulífs er líklegri til afnema höftin en Jóhönnu-stjórnin. Forystumenn í atvinnulífinu mega ekki vega að eigin trúverðugleika með afdönkuðum ESB-yfirlýsingum.
Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, sem hér hefur m. a. verið getið vegna ljóðalesturs á vegum samtakanna Attac og No Borders við Hegningarhúsið á Skólavörðustíg heldur áfram skrifum í DV til að halda lífi í „lekamáli“ blaðsins gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Nú hefur Jón Bjarki áhyggjur af rannsókn lögreglunnar af því að bróðir Hönnu Birnu og mágur eru yfirmenn hjá lögreglunni. Talar Jón Bjarki um að það þurfi að „lægja öldur“ innan lögreglunnar vegna þessa og ber fyrir sig ónafngreinda lögreglumenn. Skyldi Jón Bjarki telja nauðsynlegt að búa lesendur undir niðurstöður rannsóknarinnar á þennan hátt?