27.2.2014 19:00

Fimmtudagur 27. 02. 14

Það var tímabært í öllu svikabrigslatalinu vegna ESB-málsins að Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og innanríkisráðherra, minnti á svik Samfylkingarinnar í ræðu á alþingi. Hún benti réttilega á að mestu svik í ESB-málinu væru hjá þeim sem lofuðu fyrir kosningar 2009 og við upphaf umsóknarferilsins að honum mundi ljúka 2010 eða 2011 og örugglega á árinu 2012. Þarna voru forkólfar Samfylkingarinnar í fremstu röð, þar á meðal Árni Páll Árnason, núverandi formaður Samfylkingarinnar.

Ástæðan fyrir stöðu ESB-málsins núna er að þessir menn sviku allir það sem þeir lofuðu þegar þeir lögðu af stað til Brussel. ESB-RÚV hefur ekki fjallað um þennan þátt málsins. Það er hins vegar gert í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þar er meðal annars sagt frá kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins vegna umsóknarinnar þar sem vitnað er til þess að utanríkisráðuneytið meti að um 18 mánaða ferli verði að ræða, það er að því verði lokið á árinu 2011.

Hvers vegna í ósköpunum gengur enginn fjölmiðill eftir því á hverju utanríkisráðuneytið reisti þetta mat sitt? Í neðanmálsgrein í skýrslu hagfræðistofnunar kemur fram að miðað hafi verið við það sem gerðist þegar EFTA-ríki sömdu um aðild fyrir 20 árum. Vissi utanríkisráðuneytið ekki um breyttar aðferðir ESB við móttöku nýrra ríkja? Í stað þess að upplýsa mál eins og þetta rembist ESB-RÚV dag eftir dag við að sanna  svik á forystumenn Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa borið neina ábyrgð á stöðu ESB-málsins en leggja sig nú fram um að losa þjóðina úr ESB-viðjum fyrri ríkisstjórnar.

Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis, beitti sér í dag fyrir sáttum á þingi um afgreiðslu ESB-málsins. Þær höfðu ekki fyrr náðst en í ESB-RÚV var tekið til við að lýsa vantrausti á gildi sáttanna eins og menn hefðu misst glæpinn við Efstaleiti. Í fréttum ríkisútvarpsins af stöðu mála á alþingi er þess ekki getið að á þremur sólarhringum fluttu stjórnarandstöðuþingmenn tæpar 500 ræður um fundarstjórn forseta. Þetta er fréttnæmt nýmæli í störfum alþingis en hentar greinilega ekki þeim sem stjórna flutningi útvarpsfrétta.

Hér má lesa frásögn af ræðu Hönnu Birnu á alþingi í dag.