16.2.2014 20:17

Sunnudagur 16. 02. 14

Þáttur minn á ÍNN miðvikudaginn 12. febrúar þar sem ég ræddi við Björn Bjarka Þorsteinsson, formann byggðaráðs Borgarbyggðar, er kominn á netið og má sjá hann hér.

Lára Magnúsardóttir, sagnfræðingur og forstöðumaður rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, var í þætti með þeim Ævari Kjartanssyni og Ágúst Þór Árnasyni á rás 1 í morgun og ræddu þau þróun lýðræðis. Undir lokin var drepið á almennar umræður og störf fjölmiðlamanna en Lára starfaði meðal annars á sínum tíma sem frétta- og dagskrárgerðarmaður á ríkisútvarpinu.

Hún sagði að fréttamenn ættu ekki að láta það nægja að spyrja fyrst þennan og síðan hinn og láta hlustendum eftir að setja samtölin í samhengi heldur væri það hlutverk fréttamanna að gera það, upplýsa hlustandann á þann veg. Viðbrögð Ævars Kjartanssonar voru þau að gera lítið úr öllum öðrum fjölmiðlum en ríkisútvarpinu, þeir væru „bara grín“ en á ríkisútvarpinu skorti menn fé til að gera það sem Lára vildi að gert yrði. Hún samsinnti því ekki heldur taldi, svo að ég umorði, að það kostaði ekkert meira að gera svona hluti vel en illa. Hér væri frekar um að ræða skilningsleysi en peningaleysi.

Þá tók hún dæmi um andvaraleysi gagnvart vitleysu sem yfir fólk flæddi úr fjölmiðlum án þess að á því væri tekið og vitnaði til orða sem Mikael Torfason, ritstjóri Fréttablaðsins, hefði látið falla þegar hann kynnti nýjan sjónvarpsþátt sem hann stýrði. Þar hefði komið fram að þessi áhrifamikli fjölmiðlamaður hafi ekki vitað hvað fælist í orðinu „lýðveldi“. Hann hefði skýrt það á alrangan hátt og annað hefði verið eftir því. Við þessu sagði Ævar Kjartansson bara: „No comment.“ Hér má hlusta á viðtalið við Láru Magnúsardóttur.

Eftir viðtalið hef ég velt fyrir mér hvernig menn geta tekið að sér ritstjórn blaðs eða stjórn sjónvarpsþáttar um stjórnmál án þess að þekkja merkingu orðsins „lýðveldi“.

ps. Jón Bjarki Magnússon las ljóð á fundi Attac og No Borders  en flutti ekki ræðu eins og sagt var hér í gær. Þá segir Jón Bjarki að þeir félagar séu ekki viðkvæmir fyrir því sem segir um þá á Google þótt ég sé annarrar skoðunar.