31.1.2009

Stjórnarslit - stjórnarmyndun

Á ríkisstjórnarfundi, sem haldinn var föstudaginn 23. janúar, hinum síðasta í ráðuneyti Geirs H. Haarde, var meðal annars lagt á ráðin um skipan starfshópa undir forystu ráðherra til að takast á við brýn úrlausnarefni. Varð ég ekki var við annað en ráðherrar einstakra málaflokka, sem þar komu við sögu, hefðu fullan og einlægan hug á því að setjast í slíka hópa til að vinna að því, sem nefnt hefur verið fasi 2 í aðgerðum stjórnvalda eftir bankahrunið, það er leggja grunn að framtíðinni við gjörbreyttar og verri aðstæður en nokkurn gat órað fyrir.

Eftir á að hyggja sækir að mér sú spurning, hvort allt hafi þetta verið leikaraskapur af hálfu ráðherra Samfylkingarinnar. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sýndi engin merki um, að hann væri að yfirgefa ríkisstjórnina, en hann skýrði frá því á blaðamannafundi að morgni sunnudags 25. janúar, að hann hefði ákveðið að biðjast lausnar. Hann hefði leyst stjórn fjármálaeftirlitsins frá störfum en stjórnin hefði leyst forstjóra fjármálaeftirlitsins frá störfum. Bar það allt að með þeim blæ, að ákvarðanir hefðu ekki verið teknar í skyndingu, þótt tímasetning kæmi á óvart þennan sunnudagsmorgun.

Á blaðamannafundinum skýrði Björgvin ákvörðun sína með þessum orðum:

„Ákvörðun mína í dag tek ég að vandlega íhuguðu máli og ég hef að sjálfsögðu hugleitt þessa pólitísku stöðu lengi. Það er alveg ljóst að það er komin upp mjög erfið staða í samfélaginu og lengi framan af taldi ég að okkur myndi takast að skapa vinnuumhverfi og traust við endurreisnarstarfið. Mjög margir bera hina pólitísku ábyrgð og ábyrgð á falli bankanna, það blasir við. Það eru stjórnmálamenn, það eru stofnanir samfélagins og það eru þeir fyrst og fremst að sjálfsögðu sem ráku fjármálafyrirtækin í þrot en auðvitað þeir sem að umgjörðina skópu ríkisstjórnin núna og ríkisstjórnir fyrri ára.“

Björgvin sagði jafnframt:

„Það eru kannski stærstu mistök mín og okkar allra að hafa ekki barist harðar og harkalegar fyrir því að við yrðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, gerast aðilar að myntbandalagi eða tengja með einhverjum hætti við stærri og öflugri gjaldmiðil af því að það gat aldrei verið svo til lengri tíma að þjóð byggi við tífalt fjármálakerfi miðað við landsframleiðslu og þennan litla gjaldmiðil.“

Fleira óvænt gerðist sunnudaginn 25. janúar, þegar þau hittust tvisvar á fundi heima hjá Geir H. Haarde – hann og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, en með þeim voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Össur Skarphéðinsson. Fréttamenn sátu um heimili Geirs og voru sýndar myndir af því, þegar Össur leiddi Ingibjörgu Sólrúnu af fyrri fundinum, en hún átti greinilega erfitt með gang, enda nýkomin úr heilaaðgerð í Stokkhólmi.

Eftir seinni fund þeirra var ljóst, að draga yrði til úrslita um stjórnarsamstarfið, hvort það héldi eða upp úr því slitnaði. Þessi úrslit voru kynnt í hádeginu mánudaginn 26. janúar eftir þingflokksfundi stjórnarflokkanna. Við sjálfstæðismenn mátum stöðuna þannig, eftir að okkur hafði verið kynnt sú krafa Ingibjargar Sólrúnar, að Samfylkingin ætti að fá embætti forsætisráðherra, að ekki yrði lengra gengið í samstarfinu, því væri einfaldlega lokið. Kynnti Geir þá niðurstöðu, eftir að hann hafði rætt við Ingibjörgu Sólrúnu en hún kaus hins vegar að ræða við fjölmiðla, áður en þau Geir hittust að loknum þingflokksfundum. Geir sagði ekki unnt að starfa með Samfylkingunni enda væri hún flokkur „í tætlum“.

Geir fór til Bessastaða og átti fund með Ólafi Ragnari Grímssyni klukkan 16.00 og baðst þar lausnar. Ólafur hitti síðan formenn annarra stjórnmálaflokka en Heimir Már, fréttamaður á Stöð 2. lét í veðri vaka eftir samtal við Ingibjörgu Sólrúnu á Bessastöðum, að unnt yrði að mynda minnihlutastjórn Samfylkingar og vinstri-grænna með hlutleysi framsóknarmanna á 24 tímum. Ýtti þetta undir grunsemdir sjálfstæðismanna um, að stjórnarslitin ættu sér lengri aðdraganda en af var látið.

Um hádegisbil þriðjudaginn 27. janúar sagði Ólafur Ragnar, að hann hefði ákveðið að biðja forystumenn Samfylkingar og vinstri-grænna að ræða saman um myndun minnihlutastjórnar með stuðningi framsóknar og hann hefði falið Ingibjörgu Sólrúnu að stjórna viðræðunum. Koma myndi til skoðunar „að einn eða tveir virtir einstaklingar, sérfræðingar utan þings, tækju kannski sætu í slíkri ríkisstjórn.“ Þá taldi Ólafur Ragnar, að „slík ríkisstjórn sem nyti stuðnings eða samvinnu við að minnsta kosti fjóra flokka á alþingi og hefði slíka tilvísun út í samfélagið væri kannski á vissan hátt í anda þeirrar þjóðstjórnarhugmyndar sem margir hafa sett fram að undanförnu.“

Ólafur Ragnar sagði, að stjórnarmyndun yrði að ganga greiðlega og hann mundi ræða við formennina aftur síðdegis miðvikudaginn 28. janúar eða í síðasta lagi að morgni fimmtudags 29. janúar, þótt Ingibjörg Sólrún slægi þann varnagla, að ný stjórn ætti að verða starfhæf „helst eigi síðar en fyrir helgi.“

Ólafur Ragnar sætti gagnrýni fyrir fljótfærnisleg ummæli sín í kvöldfréttum RÚV 26. janúar, þegar hann sagði:

„Ég hef tekið eftir því að það hefur verð hér umræða um þingrof. En en fráfarandi forsætisráðherra Geir Haarde setti ekki fram neina slíka ósk á okkar fundi hér áðan. Þess vegna er auðvitað alveg ljóst að frá og með þessari stundu er ekki starfandi neinn forsætisráðherra í landinu sem að getur gert tillögu um þingrof og samkvæmt stjórnskipun er það þess vegna alfarið í hendi forsetans.“

Lögfræðinga, ekki síst stjórnlagafræðinga, rak í rogastans við þessi orð Ólafs Ragnars svo fjarri eru þau allri hefðbundinni túlkun á hlutverki forsætisráðherra í starfsstjórn eða á skyldum forsetans.

Á sama fundi með fréttamönnum og þau Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J. voru á Bessastöðum um hádegisbil 27. janúar urðu umræður um vald forsetans og lýsti Heimir Már því, sem gerðist lýst þannig í fréttum Stöðvar 2:

„Og þegar fréttamannafundurinn á Bessastöðum fór að snúast meira um völd forsetans vildi Ingibjörg Sólrún ólm að hún og Steingrímur drifu sig með keflið frá forsetanum til eiginlegra stjórnarmyndunarviðræðna.

Heimir Már Pétursson: Nú hafa nokkrir sérfræðingar í stjórnmálum og sögu sett fram efasemdir um þingrofsvaldið.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Ég biðst forláts á því að trufla þennan málfund en ég held að við ættum að hverfa af vettvangi og koma okkur að störfum.

Ólafur Ragnar Grímsson: Já, já, ég skal alveg svara þessu. Þakka ykkur fyrir og óska ykkur alls hins besta og svo skal ég svara þessari spurningu Heimis hérna.

Hverju Ólafur Ragnar svaraði Heimi kemur ekki fram í fréttinni. Hitt er, að stjórnarmyndunarviðræðurnar urðu langvinnari en talið var þennan þriðjudag og jafnframt hvarf forystan úr höndum Ingibjargar Sólrúnar, ef marka má fréttir, til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherraefnis.

Að kvöldi fimmtudags 29. janúar sagði Kristján Már Unnarsson frá því í fréttum Stöðvar 2, að vinstri-grænir hefðu verið komnir til stjórnarmyndunarfundar í alþingishúsinu klukkan 11.00 fyrir hádegi en samfylkingarfólk ekki látið sjá sig fyrr en 11.30 hefðu fréttamenn velt því sér hvort „hnútur væri kominni í viðræðurnar.“ Kristján Már leitaði skýringa hjá Össuri Skarphéðinssyni.

Kristján Már: En það að Jóhanna skuli ekki vera mætt, er það vísbending um að það sé kominn hnútur í viðræðurnar?

Össur: Nei, nei, nei, hún situr bara með formanni Samfylkingar og þar sem við vorum öll.

Kristján Már: En er ekki móðgun að láta vinstri-græna bíða svona lengi eftir ykkur?

Össur: Þeir eru búnir að bíða í 18 ár.

Þetta er ekki auðmjúkur tónn og ekki sýndu forystumenn Samfylkingar og vinstri-grænna neinn sérstakan hlýhug í garð framsóknarmanna, sem þó höfðu lykilinn að stjórnarráðinu fyrir þetta fólk í hendi sér.

Á lokasprettinum var framsóknarmönnum nóg boðið og kröfðust haldbetri upplýsinga en þeim höfðu verið veittar – gegnsæi til að efla traust er eitt af leiðarhnoðum Jóhönnu og Steingríms J. en það virtist ekki eiga við um samskipti þeirra við Framsóknarflokkinn. Til þess var greinilega ætlast, að hann héldi sér á mottunni og gerði það eitt, sem af honum yrði krafist.

Bylgjan flutti fréttir af stjórnarmyndunarviðræðunum í hádegi fimmtudags 29. janúar og þá var sagt að stefnt væri að því að kynna nýjan stjórnarsáttmála föstudaginn 30. janúar og var þetta haft eftir Steingrími J. og taldi hann að skipt yrði um ríkisstjórn laugardaginn 31. janúar. Í þessari frétt urðu þessi orðaskipti:

Kristján Már Unnarsson: Hafið þið einhverjar áhyggjur af framsóknarmönnum að þeir verði eitthvað erfiðir að koma til liðs við ykkur?

Steingrímur J.: Nei, nei, nei, nei, við höfum það ekki. Þeirra tilboð liggur fyrir um að verja ríkisstjórnina þannig að hún verður mynduð á þeim grunni. Það liggur alveg fyrir.

Síðar í sömu frétt:

Fréttamaður: Kemur til greina að Framsóknarflokkurinn fái forseta alþingis?

Jóhanna Sigurðardóttir: Við erum tilbúin að skoða allt í því sambandi. Við þurfum að tala betur við Framsóknarflokkinn og munum gera það væntanlega núna á eftir.

Kristján Már: En hafið þið áhyggjur af sjónarmiðum þeirra, framsóknarmanna?

Jóhanna: Nei, nei, nei, nei.

Athyglisvert er, að þau Jóhanna og Steingrímur J. segja hvort um sig fjórum sinnum nei, þegar þau eru spurð um, hvort framsóknarmenn séu þeim erfiðir. Annað kom á daginn síðdegis föstudaginn 30. janúar. Framsóknarmenn vildu fá að hafa skoðun og síðdegis laugardaginn 31. janúar birtist viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, á mbl.is, þar sem hann sagði, að Samfylkingin hefði ætlað að beita framsóknamenn klækjabrögðum á lokastigi stjórnarmyndunarinnar.

Framsóknarmönnum hefði ekki hugnast það föstudaginn 30. janúar, þegar kynnt var dagskrá stjórnarskipta áður en Framsóknarflokknum hefðu verið kynntar þær aðgerðir, sem þó væru forsenda þess að hann veitti þessari minnihlutastjórn vörn. Jafnframt hefði því verið haldið fram að Framsóknarflokkurinn væri að tefja stjórnarmyndun, á sama tíma og þingflokkurinn hefði í raun verið að sjá þessar tillögur í fyrsta skipti. Taldi Sigmundur Davíð, að Jóhanna hefði ekki staðið að þessu heldur hafi „verið hópur fólks í Samfylkingunni sem fór aðeins fram úr sér.“ Hann sagði einnig á mbl.is:

„Þetta voru einhverjir sem vildu beita þessari aðferð til að þrýsta á að þessi stjórnarskipti yrðu sem hraðast og óheppilegt að slíkum aðferðum sé beitt þegar verið er að ræða grundvallaraðgerðir í efnahagsmálum. En Jóhönnu er ekki um að kenna og jafnframt er ástæða til að hrósa vinstri grænum því þótt þeir séu oft með furðulegar hugmyndir hafa þeir verið alveg sjálfum sér samkvæmir í þessu ferli.“

Sigmundur Davíð sagði allt stefna í að framsóknarmenn gæfu nýju stjórninni grænt ljós. Hann var spurður, hvort töf við stjórnarmyndun mætti rekja til reynsluleysis hans og almenns reynsluleysis við að mynda minnihlutastjórn. Sigmundur tók ekki undir þessi sjónarmið en málið hefði alfarið verið í höndum Samfylkingar og vinstri-grænna fram á föstudaginn 30. janúar. Væri einhverju um að kenna væri það „frumhlaupi þeirra sem vildu beita ákveðnum klækjum við að koma þessu á sem fyrst.“

Þegar þetta er skrifað síðdegis laugardaginn 31. janúar bendir allt til þess, að stjórnarskipti verði sunnudaginn 1. febrúar. Að loknum þingflokksfundi klukkan rúmlega 18.00 sagði Sigmundur Davíð, að framsóknarmenn myndu verja ríkisstjórnina vantrausti en óljóst væri um stuðning þeirra við einstök frumvörp, sem ríkisstjórnin hefði í hyggju að flytja. Í þessu felst, að svigrúm ríkisstjórnarinnar verður mjög þröngt og hún hefur enga tryggingu fyrir stuðningi meirihluta á þingi við frumvörp sín.

Telja má, að litlu hafi munað, að upp úr þessum viðræðum hafi slitnað og augljóst er, að gagnvart almenningi hafa málsvarar stjórnarsamstarfsins leitast við að draga upp miklu bjartari mynd af því, sem hefur verið að gerast í viðræðunum, en raun hefur verið.

Enn er hvorki vitað hvað er í málefnapokanum eða hverjir verða ráðherrar. Sagt er, að þeim verði fækkað úr 12 í átta og tveir verði sóttir úr fyrir hóp þingmanna. Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, hefur þegið boð um að verða viðskiptaráðherra. Gylfi er í hópi þeirra hagfræðinga, sem dregið hefur upp hvað dekkstu myndina af efnahag þjóðarinnar hann hélt ræðu á útifundi á Austurvelli hinn 17. janúar sl. Hann sagði erfitt að vera bjartsýnn á tímum sem þessum. Þjóðin þurfi að fá aftur trú á sjálfri sér og leiðtogum sínum. Gera þurfi breytingar og þá fyrst á hugmyndafræðinni sem sé andlega gjaldþrota. Þeir sem fóru fyrir henni þurfi að víkja strax af sviðinu og láta öðrum eftir uppbygginguna. Síðan sagði hann orðrétt:„Fyrsta skrefið til fyrirgefningar er að þetta, að fólk rétti fram sáttarhönd og axli ábyrgð með því að víkja. Því miður hefur lítið sést til þeirrar sáttarhandar ennþá, það glittir bara í löngutöng. Allt þetta fólk má auðvitað starfa að uppbyggingunni en það má ekki og getur ekki stjórnað henni. Þeir sem strönduðu þjóðarskútunni eiga ekki að stýra henni af strandstað. Þeir geta ekki hvatt landa sína til dáða, það hefur enginn trú á þeirra lausnum. Þeir mega hins vegar leggjast á árarnar með öllum hinum á almennu farrými.“

Verði Gylfi ráðherra, reynir á hæfni hans til að hvetja þjóðina til dáða. Til þess þarf hann að tileinka sér annan tón en hina sífelldu svartsýni.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gaf þriðjudaginn 27. janúar út reglugerð um hvalveiðar sjónvarpið bar ákvörðun ráðherrans undir Einar Mar Þorsteinsson stjórnmálafræðing í fréttum sínum 28. janúar. Stjórnmálafræðingurinn sagði:

„ Jú, ég held að þessi ákvörðun sé alveg í hæsta máti óeðlileg hvað sem að mönnum finnst um hvalveiðar, hvort sem menn eru hérna, með þeim eða á móti en, en hann náttúrulega er sitjandi eða í rauninni situr í starfsstjórn. Hann er búinn að hafa þannig séð marga mánuði til þess að taka þessa ákvörðun og, og það er ekki hægt að lesa í þessa ákvörðun annað en þetta sé svona, ja, hvað eigum við að segja svona ákveðin, ákveðin svona hefnd á Samfylkinguna og, og að þá að, að næsta ríkisstjórn sem verður væntanlega Samfylking og vinstri-grænir þurfi þá að, að afnema þessa ákvörðun sem gæti orðið, orðið mjög óvinsælt.

Gísli Einarsson: Ertu þá að meina hann sé í raun og veru að, að stilla komandi ríkisstjórn upp við vegg, eða koma jafnvel höggi á hann?

Einar Mar Þórðarson: Já, ég held að það sé, sé ekkert hægt að lesa þessa ákvörðun hérna öðruvísi og hingað til hafa þessar starfsstjórnir sem hafa setið milli, milli ríkisstjórna ekki tekið neinar stór, neinar stórvægilegar ákvarðanir og, og þessi ákvörðun í rauninni brýtur í bága við, við allar hefðir og þannig er ekki hægt að skilja það öðruvísi en að hann sé í rauninni bara já, að koma höggi á, á næstu ríkisstjórn, hver sem hún verður.“

Ég veit ekki við hvað Einar Mar styðst í fullyrðingu sinni um ákvarðanir starfsstjórna. Ég ritaði hins vegar lögfræðilega ritgerð um starfsstjórnir, sem birtist í 1. hefti Tímarits lögfræðinga 1979 og er það meginniðurstaða mín, að umboð ráðherra í starfsstjórnum sé hið sama og almennt í ríkisstjórnum, þótt þeir eðli máls samkvæmt séu ekki að leggja á ráð um pólitíska framtíðarstefnu.

Einar K. Guðfinnsson hafði að mínu mati fulla heimild til útgáfu á þessari reglugerð og túlkun Einars Mars á ákvörðuninni er pólitísk en ekki fræðileg.

Sjálfstæðisflokkurinn verður nú utan ríkisstjórnar í fyrsta sinn síðan 1991. Efnt var til fundar á vegum flokksins á Grand hóteli síðdegis föstudaginn 30. janúar og sóttu hann um 700 manns. Þar lýsti ég þeirri skoðun, að nú byði flokksins að skipta um forystu, endurnýja þingmannahóp sinn og móta endurreisnaráætlun til 18 mánaða, sem lögð yrði fyrir kjósendur í komandi þingkosningum.