26.2.2014 21:40

Miðvikudagur 26. 02. 14

Í dag ræddi ég við Gunnar Haraldsson, forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum skýrslu stofnunarinnar um stöðu ESB-málsins og framtíðina innan ESB. Þessi skýrsla var lögð fram þriðjudaginn 18. febrúar. Þegar menn kynna sér hana eða horfa og hlusta á samtal okkar Gunnars sjá þeir fljótt að skýrslan gefur ekkert tilefni til þess uppnáms sem hefur orðið á stjórnmálavettvangi um hana. Deilurnar og hitinn í þeim vekja spurningu um hvort þetta sé eitt af þeim málum sem er of stórt viðfangsefni fyrir þá sem sitja á alþingi um þessar mundir.

Efni málsins er of stórt fyrir fréttastofu ríkisútvarpsins. Fréttir hennar beinast að rannsókn á yfirlýsingum frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar í stað þess að kafa ofan í gang ESB-viðræðnanna á grundvelli skýrslunnar. Þetta er einkennilegt en fellur að hagsmunum ESB-aðildarsinna en allt frá því ESB-umsóknin var samþykkt hafa leiðir fréttastofunnar og aðildarsinna legið saman.

Samstaða aðildarsinna utan og innan Sjálfstæðisflokksins skilaði ekki þeim árangri sem að var stefnt í kosningunum. Nú á að ná fram hefndum eftir kosningarnar með linnulausum árásum á Sjálfstæðisflokkinn og einkum formann hans.

Til marks um að baráttan gangi ekki eins og að var stefnt er vaxandi reiði og beinlínis dónaskapur stjórnarandstöðunnar í þingsalnum.

Samtal okkar Gunnars Haraldssonar má sjá næst á ÍNN klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.