28.2.2014 22:10

Föstudagur 28. 02. 14

Hið undarlega gerðist í dag að allt í einu birtist spurning og svar á Evrópuvefnum sem hefur verið haldið úti af Háskóla Íslands. Vefsíðunni var lokað um síðustu áramót en í dag „laumaði“ einhver inn á vefinn svari við spurningu um varanlegar undanþágur við aðild að ESB og var vitnað í gamalt þingsvar Össurar Skarphéðinssonar, þáv. utanríkisráðherra, í svari Evrópuvefsins. Engin skýring hefur verið gefin á því að allt í einu var sett svar á vefinn við gamalli spurningu í dag, ekki hefur annað verið vitað en starfsmenn hafi horfið frá Evrópuvefnum um síðustu áraámót. Hver getur gefið skýringu á þessu? Var um áróðursbragð í þágu ESB-aðildar að ræða?

Á fasbókinni fékk ég spurningu frá Hafsteini B. Árnasyni:

„Liggur samt ekki best við því að taka sáttatillögu VG? Sjálfstæðisflokkurinn nær þá að bjarga andlitinu gagnvart ósáttum kjósendum í ljósi óheppilegra ummæla allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir síðastliðnar kosningar.“

Ég svaraði á þennan hátt:

„Ég hef ávallt leitast við að beita mér fyrir sem víðtækastri sátt um afstöðuna til ESB þar sem ég hef komið að málum en jafnan mælt gegn aðild. Í Evrópunefndinni sem ég stýrði og lauk störfum í mars 2007 gerði ég samkomulag um bókun við VG. Ávallt ber að líta á efnislega hlið málsins og augljóst er að samhljómur er í afstöðu stjórnarflokkanna og VG þótt um stigsmun sé að ræða. Einar K. Guðfinnsson sat með mér í þeirri nefnd. Hann beitti sér í gær fyrir samkomulagi á alþingi sem kom ESB-málinu til nefndar.

Þess má geta að Katrín Jakobsdóttir, núv. formaður VG, sat í Evrópunefndinni með mér og einnig Ragnar Arnalds. Við stóðum sameiginlega að séráliti eftir að nefndin hafði náð einróma samkomulagi um meginniðurstöðuna.

Nú hefur fréttastofa ríkisútvarpsins staðið í rúma viku að samfelldum áróðri gegn forystumönnum Sjálfstæðisflokksins vegna ESB-málsins. Fréttamenn voru kampakátir yfir árangri sínum í kvöld þegar þeir lýstu tölum um ört minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins sömu daga og áróðursherferðin stóð.

Hver er skýringin á því að Guðlaugur Þór Þórðarson er allt í einu kynntur til sögunnar sem varaformaður þingflokks sjálfstæðismanna og hann kemur í útvarp til að segja að hann hafi ekki vitað um afgreiðslu þingflokksins á tillögu utanríkisráðherra um afturköllun ESB-umsóknarinnar? Hefði breytt einhverju þótt Guðlaugur Þór hefði ekki verið í Singapúr við afgreiðslu þingflokksins?