13.2.2014 21:50

Fimmtudagur 13. 02. 14

Í dag sótti ég málstofu í Háskóla Íslands á vegum Miðaldastofu þar sem Jesse Byock, prófessor frá UCLA, flutti erindi um hinar víðtæku fornleifarannsóknir sem hann hefur stjórnað að Hrísbrú í Mosfellsdal en þeir teygja sig nú niður að fornu skipalægi í Leirvogi og að samfélagi víkinga hér á landi og stöðu Íslands í heildarmynd víkingatímans um og eftir landnám. Þetta eru spennandi rannsóknir sem hafa staðið í mörg ár og þar er ekki síður stuðst við ritaðar heimildir en það sem jörðin geymir. Stofan í Árnagarði var þéttsetin og er það enn til marks um mikinn áhuga á miðaldafræðum og rannsóknum.

Lögfræðingur Reynis Traustasonar sendi mér kröfubréf í dag þar sem ég er sakaður um að hafa brotið235. gr. alm. hgl. Ég hafi með öðrum orðum haft í frammi aðdróttun „virðingu“  DV „til hnekkis“. Lesendur blaðsins vita að til þess þarf einbeittan brotavilja og er hann ekki fyrir hendi hjá mér. Er leitt til þess að vita ef saklaus skrif mín hafa dregið úr trúverðugleika DV að mati Reynis Traustasonar sem má ekki vamm sitt vita eins og alþjóð þekkir.

Ég dró aðeins ályktun af skrifum blaðsins og samhljómi þeirra við málstað og málflutning samtakanna No Borders enda flutti blaðið hvað eftir annað fréttir um mótmælafund á vegum No Borders og nokkurra annarra samtaka við innanríkisráðuneytið sem haldinn var í hádegi miðvikudags 12. febrúar. Að sögn ríkisútvarpsins sóttu um 30 manns fundinn. Þeir eru því ekki margir sem standa að No Borders þrátt fyrir mikla kynningu á fundinum í DV.

Lögfræðingurinn veitti mér frest til að bregðast við bréfinu. Þar sem hann er svo skammur að ég fæ ekki ábyrgðarbréfið sjálft í hendur áður en hann líður er mér gert ómögulegt að svara innan frestsins og beiðni minni um að framlengja hann hefur verið hafnað