Mánudagur 17. 02. 14
Áður en lagt var af stað í viðræður um fríverslun milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins vildi franski menningarmálaráðherrann tryggja að þar yrði ekki rætt um frjálst flæði bandarískra kvikmynda eða sjónvarpsefnis. Nú birtast fréttir um að sjónvarpsstjórar þriggja franskra einkarekinna stöðva: TF1, Canal+ og M6 hafi óskað eftir fundi með menningarmálaráðherranum til að ræða aðgerðir gegn Google, Apple og Netflix svo að þessi bandarísku alþjóðafyrirtæki „hleypi ekki upp“ franska markaðnum.
Með fréttinni um þetta á alþjóðlegum vefsíðum birtist mynd úr sjónvarpsþættinum Spilaborginni eða House of Cards en fyrsti þátturinn í nýrri röð hófst í ríkissjónvarpinu í kvöld. Hann er framleiddur af Netflix og hefur slegið í gegn um heim allan.
Spurning er hvort Frakkar vilja banna þætti frá Netflix alls staðar innan Evrópusambandsins.