Laugardagur 08. 02. 14
Á ruv.is má lesa í dag:
„Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra skartaði regnbogatrefli, tákni samkynhneigðra, á setningarhátíð Vetrarólympíuleikana í Sotsí.
Trefillinn er gjöf frá Samtökunum ´78 og Hinsegin dögum í Reykjavík sem fulltrúar þeirra afhentu menntamálaráðherra á þriðjudag með þeim óskum að hann myndi halda réttindum hinsegin fólks á lofti í Sotsí enda væri staða samkynhneigðra í Rússlandi afar veik. Illugi sagði fulltrúunum að hann væri fyrst og fremst að fara til Rússlands af því hann hefði þegið boð á Ólympíuleika og hann vissi ekki hvort hann myndi hitta rússneska ráðamenn.
Illugi setti mynd af sér með regnbogatrefilinn á setningarathöfninni á Facobook-síðu sína í dag. Fulltrúar Samtakanna ´78 og Hinsegin daga báðu hann að taka með regnbogatrefil og fleira til að færa forseta Íslands á leikunum og sagðist menntamálaráðherra myndu verða við því.“
Hér hefur verið bent á að mannréttindaþátturinn í tengslum við ferðir stjórnmálamanna til Sotsjí snúist meira um heimamarkað en að hafa áhrif á gestgjafa leikanna. Þetta er eðlilegt. Erlendis eru ekki nein atkvæði. Þessi frétt er í þeim anda.
Illugi hlýtur að hafa afhent Ólafi Ragnari regnbogatrefilinn. Einhvers staðar birtist að vísu mynd frá Sotsjí af Ólafi Ragnari með regnboga-fingravettlinga.
Séu þetta djörfustu mótmælaaðgerðirnar í Sotsjí getur Vladimir Pútín og 100.000 manna öryggisliðið andað léttar.