Mánudagur 24. 02. 14
Það var skrýtið að Helgi Seljan skyldi allt í einu blanda Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, og ummælum hennar um Möltu og stöðu þess ríkis innan ESB í samtal við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í Kastljósi kvöldsins. Var það vegna þess að Helga mistókst með öllu ætlunarverk sitt að stimpla Bjarna sem svikara kosningaloforða? Ætlaði hann að koma Bjarna úr jafnvægi með þessum orðum? Það mistókst einnig.
Ég fjallaði um samtal þeirra Helga og Bjarna á Evrópuvaktinni eins og sjá má hér.
Bjarni fékk hins vegar tækifæri til að benda á hve fráleitt væri að láta eins og samningar ESB við Möltu væru eitthvað fordæmi fyrir Íslendinga. Bjarni nefndi hvernig að þessu var staðið gagnvart Maltverjum, ekki er þar nein varanleg undanþága.
Um er að ræða útgerð smábáta á 12 til 25 sjómílna belti við Möltu sem veiða 800 til 1.000 lestir af fiski samtals á ári. Bátum af þessari stærð er ekki siglt frá öðrum Miðjarðarhafslöndum til veiða við Möltu.
Svikabrigslin í garð Bjarna Benediktssonar eru með ólíkindum. Þau sýna aðeins hve ESB-málið ristir djúpt tilfinningalega hjá sumum.
Vek athygli á að í Viðtalinu í ríkissjónvarpinu í kvöld kl. 20.20 ræðir Bogi Ágústsson við dr. Richard North sem hér var gestur Evrópuvaktarinnar og fleiri í lok janúar.