Sunnudagur 23. 02. 14
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sendir frá sér skýrslu um ESB-viðræður íslenskra stjórnvalda og breytingar á ESB. Skýrslan staðfestir að viðræðurnar sigldu í strand snemma árs 2013 án þess að þær hefðu hafist um erfiðustu kaflana, landbúnað og sjávarútveg. Í skýrslunni kemur fram að undanþágur í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum eru taldar nær óhugsandi.
ESB-aðildarsinnar lýsa yfir að ekkert sé að marka þennan þátt skýrslunnar, víst sé unnt að semja um sérlausnir. Þeim tókst alls ekki að þoka málum til þeirrar áttar í stjórnartíð sinni.
Ríkisstjórnarflokkarnir leggja fram tillögu um að alþingi afturkalli ESB-umsóknina.
ESB-aðildarsinnar innan Sjálfstæðisflokksins saka formann flokksins um svik við sig. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi flokksformaður, segir á Stöð 2 að brotið hafi verið loforð við sig. Loforð sem varð til þess að hann kaus flokk sinn í kosningunum 2013 og fékk aðra til þess – annars væri flokkurinn ekki hinn stærsti á alþingi.
ESB-aðildarsinnar reyna með öllum tiltækum ráðum að snúa umræðunum frá þeirri staðreynd að ESB-viðræðunum var siglt í strand á vakt Össurar Skarphéðinssonar í utanríkisráðuneytinu. Össur og hans menn gjörtöpuðu þingkosningunum. Að krefjast þess að sigurvegararnir fari að vilja hinna sigruðu er andlýðræðislegt.
Samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins er um að flokkurinn vilji hætta ESB-viðræðunum og ekki hefja þær að nýju nema það sé samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ber að skýra öll ummæli forystumanna flokksins í því ljósi. Sjálfstæðisflokkurinn telur auk þess að þjóðinni sé betur borgið utan ESB en innan. Það er því fráleitt að flokkurinn standi að tillögu um að halda viðræðunum áfram.