27.6.2009

Laugardagur, 27. 06. 09.

 

Í morgunverðinum á hótelinu þekktum við andlit margra gesta, því að daginn áður sáum við þá ganga löturhægt um völdundarhúsið í dómkirkjunni. Konu í hópi gestanna sá ég  bæði fyrir og eftir hádegi í völundarhúsinu og hafði hún greinilega forystu fyrir hópi Þjóðverja og leiðbeindi byrjendum um, hvernig þeir skyldu ganga til hinnar nýju Jerúsalem á dómkirkjugólfinu í Chartres.

Ókum frá Chartres til les Murs, sveitaseturs Jaaps Schröders. fiðluleikara, og Agnesar, konu hans. Þau eru bæði á níræðisaldri en hafa um árabil sótt Ísland heim, þar sem Jaap hefur lagt sumartónleikunum í Skálholti lið. Af því starfi spratt Skálholtskvartettinn með þátttöku Rutar, Svövu Bernharðsdóttur, víóluleikara, og Sigurðar Halldórssonar, sellóleikara. Kvartettinn hefur gert viðreist og í fyrra var ég með þeim á Mallorka, eins og lýst er hér á síðunum.

Sveitasetur Schröder-hjónanna er milli bæjarins Vierzon og borgarinnar Bourges í Berry-héraði í Cher-sýslu eða departement. Um þessar mundir er þess minnst, að 20 ár eru liðin, frá því að hraðbraut var lögð milli Parísar og Bourges. Síðan segjast íbúar Bourges komast akandi til höfuðborgarinnar á tæpum tveimur tímum, en hámarkshraði er 130 km á frönskum hraðbrautum. Vegalengd og hámarkshraði segja á hinn bóginn ekki allt um, hve fljótt er farið milli staða, því að oft verða langar tafir, þegar myndast tappar á brautunum eða bouchon eins og Frakkar segja. Greitt er vegagjald á öllum helstu hraðbrautum Frakklands og kostar 17.80  að aka rúma 200 km á milli Víerzon og Parísar.

Í áranna rás hef ég ekið mikið um Frakkland og þar með kynnst framförum í vegakerfinu, sem hafa verið miklar. Nú er unnt að aka um landið þvert og endilangt á hraðbrautum eða RN-brautum, sem er stig á milli hraðbrauta og tvíbreiðra vega í sveitum. Snyrtimennska utan og innan borga, í sveitaþorpum og við þjóðvegi er góð og meiri en á árum áður.

Við akstur inn í suma bæi eru skilti, sem segja bæinn blómabæ með tveimur stjörnum eða fleiri.  Gildir hið sama um stjörnur blómabæja og stjörnur hótela. Þeim fjölgar með auknum gæðum.  Undir þessum merkjum og með samstarfsverkefnum ríkis, héraða og sveitarfélaga hafa Frakkar lyft Grettistaki í umhverfisbótum á undanförnum árum, sé gestsaugað látið dæma um árangurinn.