8.6.2009

Mánudagur, 08. 06. 09.

Miðvikudaginn 3. júní sagði Steingrímur J. Sigfússon alþingi, að ekkert sérstakt væri að gerast í viðræðum við Breta um ICESAVE, Bretar væru of tregir til viðræðna. Fimmtudaginn 4. júní var ICESAVE-málið kynnt þingmönnum sem umsamið! Hvað gerðist? Hvers vegna spyr enginn fjölmiðill Steingrím J. um þetta? Sagði hann vísvitandi ósatt eða vissi hann ekki betur?

Mánudaginn 8. júní flytur Steingrímur J. alþingi munnlega skýrslu um niðurstöðu ICESAVE-málsins. Í frétt á mbl.is segir í frétt frá þinginu:

„Fram kom hjá Steingrími fyrr í umræðunni, að 11. október hefðu háttsettir íslenskir og hollenskir embættismenn skrifað undir minnisblað um samkomulag vegna Icesave-reikninganna um að íslensk stjórnvöld bæti hollenskum Icesave-reikningseigendum 20.887 evrur. Samkvæmt því samþykktu hollensk stjórnvöld að lána Íslendingum lán fyrir þessari fjárhæð til 10 ára, afborgunarlaust fyrstu þrjú árin, með 6,7% vöxtum.“

Ekkert er nýtt í þessum orðum Steingríms J. Hér er um sameiginlegt minnisblað að ræða en ekki samkomulag, enda sömdu Hollendingar um annað en þarna segir. Viku áður en Steingrímur J. varð ráðherra taldi hann þáverandi ríkisstjórn eiga að efna til kosninga til að komast hjá ósköpum vegna ICESAVE. Nú hefur Steingrímur J. verið fjármálaráðherra í 4 mánuði og ekki breytt neinu í ICESAVE-málinu, þótt hann láti eins og það hafi verið sín heitasta ósk að gera það.

Í Kastljósi kvöldsins sagðist hann hafa kynnst einhverjum gögnum, sem hefðu valdið sinnaskiptum hjá honum vegna ICESAVE. Steingrímur J. skuldar okkur svör um mörg álitaefni vegna orða hans og afstöðu til ICESAVE - hann getur varla kennt fyrrverandi ríkisstjórn um hans eigin orð og athafnir?

Ég skrifaði pistil um ICESAVE og vandræði Gordons Browns í dag.