Miðvikudagur, 17. 06. 09.
Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins og formaður sóknarnefndar Breiðabólstaðs, flutti ræðu við þjóðhátíðarhöld Fljótshlíðinga í Goðalandi. Hann varaði við aðild að Evrópusambandinu og taldi með öllu óviðunandi að kaupa hana því verði, sem felst í ICESAVE-samningnum.
Einkennilegt er að geta ekki flutt þjóðhátíðarfréttir í hljóðvarpi ríkisins, án þess að hafa þann formála, að engu sé líkara en fólk hafi ákveðið að gleyma vanda þjóðarbúsins, þegar það gerði sér glaðan dag. Hefur farið fram hjá fréttastofunni, að Íslendingar hafa gengið til starfa og leiks undanfarna mánuði?
Jóhanna Sigurðadóttir, forsætisráðherra, ræddi um nauðsyn nýrrar sjálfstæðisbaráttu í ræðu sinni við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. Í ræðu, sem ég flutti í Háskóla Íslands 17. október 2008 taldi ég nýja sjálfstæðisbaráttu nauðsynlega. Okkur Jóhönnu greinir hins vegar á um markmiðið: Jóhanna vill ganga í Evrópusambandið og láta af ráðum yfir auðlindum sjávar og leggja niður íslenskan landbúnað. Ég er ósammála þessu markmiði og einnig þeirri niðurstöðu Jóhönnu og samráðherra hennar, að eðlilegt sé að ganga undir ICESAVE-skuldbindingarnar til að komast í Evrópusambandið.