4.6.2009

Fimmtudagur, 04. 06. 09.

Flugferðin frá London með Icelandair gekk vel og það tók ótrúlega skamman tíma að afgreiða farangur til okkur farþeganna í Leifsstöð.

Ég sá engin merki um Evrópusambandsþingkosningarnar í London, fyrir utan að leikskóli Rutar, dótturdóttur minnar, var kjörstaður og fylgdi hún okkur því út á flugvöll í bílnum með móður sinni.

Í kvöld berast síðan fréttir af því, að James Purnell, enn einn ráðherra í ríkisstjórn Gordons Browns, hafi ritað Brown afsagnarbréf. Adam Boulton, stjórnmálaskýrandi Sky News, sagði að þetta væri „knock out“ fyrir Brown, Verkamannaflokkurinn væri í upplausn og næði sér ekki á strik undir forystu Browns. Úr Downing stræti sendir Brown hins vegar yfirlýsingu um, að hann muni endurskipuleggja ríkisstjórn sína og berjast áfram í þágu þjóðarinnar.

Verði kosningar í Bretlandi í haust, sigrar Íhaldsflokkurinn. Hann hefur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmálann, án samþykktar hans verður ESB ekki stækkað.

Við heimkomuna berast enn fréttir af vonbrigðum vegna lítillar stýrivaxtalækkunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Einkennilegt er, að ekki skuli rækilega minnt á ábendingar nefndarinnar við ákvörðun hennar í síðasta mánuði um forsendur lækkunar að þessu sinni, en þær beindust að ríkisstjórn og ákvörðunum hennar. Staðreynd er, að ríkisstjórnin hefur ekkert gert, svo segist Steingrímur J. vonsvikinn yfir því, að vextir skuli ekki lækka meira! Hann ætli að láta til skarar skríða í næstu viku!

Eftir að hafa lesið stjórnmálafréttir bresku blaðanna undanfarna daga og hvernig þau lýsa því, sem er að gerast á hinum pólitíska vettvangi, minna íslensku fjölmiðlarnir helst á skólablöð í yfirborðslegum frásögnum sínum af þróun stjórnmála og efnahagsmála, fyrir utan ESB-fjölmiðlaþrána hér, sem gengur þvert á tóninn í bresku blöðunum.

Þess er minnst í dag, að 20 ár eru liðin frá blóðbaðinu á Torgi hins himneska friðar, þegar kínversk stjórnvöld beittu hervaldi gegn námsmönnum, sem komu þar saman í nafni lýðræðis. Enn þann dag í dag er ekki vitað, hve margir féllu í átökunum, talið er, að þeir hafi verið allt að 3000.