14.6.2009

Sunnudagur 14. 06. 09.

Forsætisráðherrar Norðurlanda sitja í dag fund á Egilsstöðum. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður RÚV, spurði sænska forsætisráðherrann, hvort það væri gott fyrir Ísland, að Svíar yrðu í forsæti innan Evrópusambandsins (ESB) frá og með 1. júlí til ársloka. Vísaði Jóhanna Vigdís þar til áforma um aðildarviðræður Íslendinga við ESB.

Ástæða er til að velta fyrir sér, hvernig forsætisráðherra Svía hefði borið sig að við að svara spurningu Jóhönnu Vigdísar neitandi. Auðvitað gerði hann það ekki, en þó óbeint, þegar hann tók að ræða um „stækkunarþreytu“ innan ESB og var þannig nær Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finna, í mati sínu en Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía.

Stubb hafði um það mörg orð hér á dögunum, að aðildarferli að ESB væri enginn dans á rósum.

Hvernig sem á málið er litið, er skynsamlegt að ræða það á öðrum nótum en tilfinningalegum um það, hvort einhverjir séu góðir eða vondir í garð Íslendinga.

Fréttir sjónvarps ríkisins snerust einnig um það í kvöld, hvort Bretar væru vondir eða góðir vegna ICESAVE - niðurstaða fréttastofunnar var, að málið væri geymt en ekki gleymt meðal fótgangandi í London.