16.6.2009

Þriðjudagur, 16. 06. 09.

Ársæll Valfells skrifar um ICESAVE-samninginn á Forbes.com eins og sjá má hér

Ársæll hvetur alþingismenn til að hafna samningnum og færir fyrir því skýr rök. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra heldur hins vegar áfram að biðla til Sjálfstæðisflokksins um stuðning við þetta mál ríkisstjórnar hennar. Er ár og dagur síðan forsætisráðherra hefur talað á þann veg um lykilmál ríkisstjórnar sinnar, að það fái ekki brautargengi án stuðnings stjórnarandstöðu.

Furðulegt er, að stjórnmálafréttamenn virðast bara telja sjálfsagt og eðlilegt, að ríkisstjórnin geti ekki tryggt stuðning sinna eigin þingflokka við málið.

Eitt er að semja um lausn máls en annað gera samning á þann veg, að öll áhætta og skuldbindingar lendi á öðrum aðilanum, í þessu tilviki Íslendingum. Ákafi forsætisráðherra við að koma Íslandi í Evrópusambandið (ESB) einkennir að sjálfsögðu efni ICESAVE-samningsins, hann hefur að geyma aðgangseyri Íslendinga að ESB. Hafi ESB-þráin ekki verið jafnrík og raun er hjá ríkisstjórninni, hefði vafalaust mátt ná annarri og hagstæðari lausn fyrir okkur Íslendinga á ICESAVE-málinu.

Á sínum tíma vakti athygli og umtal, að þáverandi forseti alþingis, Halldór Blöndal, mundi ekki nafn núverandi forseta þingsins, Ástu Ragnheiðar, þegar hann þurfti að beina orðum til hennar af forsetastóli. Halldór hélt fast á stjórn þingfunda en aldrei með þeim gaura- og yfirgangi, sem einkenndi Ástu Ragnheiði í dag, þegar hún hrakti Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, úr ræðustól með ofsahöggum á forsetabjölluna.