20.6.2009

Föstudagur, 19. 06. 09.

Ástandið í Íran er á þann veg, að þar getur allt gerst. Klerkaveldið hefur ákveðið að herða tökin í því skyni að halda aftur af þeim, sem látið hafa í ljós óánægju með úrslit forsetakosninganna, í stað þess að koma til móts við óskir um endurtalningu atkvæða. Ekki var við öðru að búast. Séu kosningaúrslitin fölsuð, er það með samþykki klerkanna, sem eiga síðasta orðið innan valdakerfisins.

BBC ræddi í dag við yfirmann heimavarna á Hawaii, sem sagði varnarlið eyjanna búið undir eldflaugaárás frá Norður-Kóreu.

Þótt Barack Obama, Bandaríkjaforseti, vilji nálgast önnur ríki á annan veg en George W. Bush, forveri hans, sem kenndi Íran og N-Kóreu við hið illa í heiminum, geta atvik og atburðir knúið Obama til að harkalegra viðbragða.

Tillaga er í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um að fest verði í lög, að Bandaríkin haldi úti herafla í Evrópu. Viðhorfið er annað nú en þegar bandaríska varnarmálaráðuneytið undir stjórn Donalds Rumfelds mat stöðuna þannig, að óhætt væri að draga saman seglin í Evrópu og þar með kalla varnarliðið héðan frá Íslandi.

Leiðtogar Evópusambandsins samþykktu í dag breytingar eða skýringar á Lissabon-sáttmálanum til að auðvelda Írum að samþykkja hann í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ráðgerð er í október. Reglan er sú, að felli þjóð eitthvað í atkvæðagreiðslu, sem snertir öll ESB-ríkin, er knúið á um, að hún greiði atkvæði aftur, þar til hún segir já.

Írski forsætisráðherrann krafðist þess, að útlistunin í þágu Íra yrði sett sem viðauki við stofnsáttmála sambandsins og verða þjóðþing ríkjanna því enn að samþykkja stofnsáttmálaákvæði vegna Lissabon-sáttmálans. Stefnt er að því, að þessi nýju ákvæði verði hluti af þeim breytingum, sem samþykkja þarf til að Króatía komist í ESB. Óljóst er, hvenær það verður vegna landamæradeilu milli Króata og Slóvena.