1.6.2009

Mánudagur, 01. 06. 09.

Í dag fór ég í fræðslugöngu um það, sem leiðsögumaðurinn kallaði „Legal London“ eða London lögfræðinnar, og lá leiðin um Grey's Inn og Lincoln's Inn og lauk í Royal Court of Justice.

Áður en ég brá mér í fróðleiksferðina, skrifaði ég pistil hér á síðuna um vanda Gordons Browns og Verkamannaflokksins og nýlegar skýrslur á vegum menntamálaráðuneytisins um háskóla, vísindi og tækni. Með vísan til þeirra upplýsinga, sem ég birti á síðunni úr skýrslunum sendi glöggur lesandi síðu minnar mér þessa ábendingu: 

„Jafnaðarleg fjölgun háskólanema um 8 % á ári á tímabilinu 2001-2009 er geysimikil.  Raunkostnaður á nemanda hefur hins vegar minnkað úr 2,6 Mkr/n í 2,2 Mkr/n.  Þetta jafngildir bættri fjármagnsnýtni um 15 %.  Ef fækka á skólum, þarf að sýna fram á áframhaldandi bætta nýtni.  Hvatinn til hagræðingar minnkar við fækkun.“ 

Þessi ábending fellur að skoðun minni um, að brýnna sé að huga að gæðum menntunar og hagnýtingu hennar með því að breyta rannsóknum í verðmæti, en að leggja áherslu á að fækka háskólum. Þá er víst, að Háskóli Íslands kemst aldrei í hóp 100 bestu háskóla heims sem ríkisháskóli.

Ég sé, að forsetahjónin hafa kosið að vera á Kýpur á smáþjóðaleikum í stað þess að hitta Dalai Lama í eina skiptið, sem hann kemur til Íslands. Smáþjóðaleikarnir eru á tveggja ára fresti og í tíð minni sem menntamálaráðherra kom aldrei til álita, að forseti Íslands heiðraði leikana með návist sinni.

Enginn hefði túlkað það sem áhugaleysi á smáþjóðaleikunum, hefðu forsetahjónin ákveðið að vera á Íslandi og hitta Dalai Lama.

Vegna frásagnar minnar í gær af reiði kínverska sendiherrans er rétt að geta þess, að 2004 fór ég til Kína, þegar Þingvellir voru settir á heimsminjaskrá UNESCO og var síðan gestur kínversku ríkisstjórnarinnar, sem tók höfðinglega á móti mér og fylgdarliði mínu.