21.6.2009

Sunnudagur, 21. 06. 09.

Grænlendingar fengu stjórn eigin mála í sínar hendur í dag. BBC World sýndi athöfninni í Nuuk verðskuldaða athygli og lét þess getið, að miklar auðlindir kynnu að leynast undir ísnum við Grænlandsstrendur.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í dag og lýsti áhyggjum vegna þess hve illa þau Jóhanna og Steingrímur J. halda á stjórn þjóðmála. Stuðningsmenn þeirra kalla á meiri upplýsingar. Í ákallinu felst, að þeir finna fyrir því, hve fjarar undan stjórninni.

Málsvarar atvinnurekenda og launþega sitja langa fundi með stjórnarherrunum, án þess að segja frá því um hvað er rætt. Þeir skulda umbjóðendum sínum ekki síður upplýsingar en stjórnarherrarnir sínum.