30.6.2009

Þriðjudagur, 30. 06. 09.

 

 

Um klukkan 09. 00 var ekið af stað í tveimur bílum frá les Murs til Ermarsundsborgarinnar Dieppe . Hraðbraut er  rétt norður fyrir Orleans,  síðan RN-vegur til Chartres og Dreux, sem breytist í hraðbraut á leiðinni til Evreux, um Rouen og til Dieppe. Á strandgötunni í Dieppe var notaleg hafgola um  kl. 13.30 og hiti um 28 gráður. Við pöntuðum staðarréttinn, kræklinga og franskar, í hádegisverð.

Um tveimur tímum síðar ókum við að tónleikastaðnum í þorpinu Varengeville skammt fyrir sunnan Dieppe og þar fórum við í Le Bois de Moutiers í hús, sem reist var 1898 af Guillaume Mallet (1859-1945)  og teiknað af enska arkitektinum Edwin Luytens (1869 -1944), sem þá var 29 ára.  Húsið er í Arts and Crafts stíl og einstakt í Frakklandi, en William Morris (1838-1896)  er hugmyndafræðingur þessa stíls. Húsið hefur verið varðveitt utan og innan í upprunalegri mynd.  Umhverfis það er einstakur garður, skipulagður í enskum stíl.

1970 ákvað tengdadóttir húsbyggjandans,  Madame André Mallet, fædd Mary de Luze (1905 – 2004) að opna garðinn almenningi og gefa gestum færi á að kynnast fjölbreytni hans og fegurð gegn gjaldi.  Um timmtíu þúsund gestir heimsækja garðinn árlega en húsið sjálft er lokað almenningi. Dóttir hinnar framsýnu tengdadóttur hússins sýndi okkur innbú og herbergjaskipan og sagði það hvorki hafa getað varðveist í upprunalegri mynd né garðinn haldið einstakri fegurð sinni, ef móðir sín hefði ekki stigið það skref, fyrst allra í Frakklandi, að opna garðinn.

Húsið er bjart og glæsilegt en frá því sést yfir garðinn út á haf. Sal, bóksafni og dagstofu, á tveimur hæðum með stórum glugga í átt að hafi í vest-norður var breytt í tónleikasal og hann fylltur með lausum stólum fyrir um 200 gesti.

Lítil aðstaða var fyrir tónlistarfólkið til að búa sig undir konsertinn, eftir að þau höfðu æft sig um stund í salnum. Við fengum léttan kvöldverð á flötinni fyrir framan húsið.

Klukkan um 20.00 tók fólk að streyma að  og þegar tónleikarnir hófust klukkan 20.30 var salurinn þéttsetinn. Skálholtskvartettinn lék Rósamundu-kvartettinn eftir Schübert og þegar Bruno bættist í hópinn léku þau kvintett Schüberts og var vel fagnað af áheyrendum.

Að tónleikum loknum var lyft glasi á flötinni framan við húsið og síðan ókum við um 40 km í náttmyrkri norður til strandbæjarins Eu, en þar bjuggu tónlistarvinirnir, sem skipulögðu tónleikana. Var klukkan orðin 00.30, þegar við Rut gengum inn á hótel Maine, sem áður hafði verið Hotel de la Gare í Eu.