9.6.2009 20:40

Þriðjudagur, 09. 06. 09.

 

Að þessu sinni ræði ég nokkra punkta úr fréttum dagsins.

Ég les á ruv.is:

„Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að forsendur séu nú fyrir frystingu eigna þeirra auðmanna sem hafa stöðu grunaðra í sakamálum þeim sem sérstakur saksóknari hefur til rannsóknar. Gott hefði þó verið ef rannsókn mála hefði gengið hraðar fyrir sig.

„Það er alltaf vont að svona dragist, það geta tapast gögn og farið forgörðum hlutir sem er mikilvægt að ná til snemma,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon. „Nú er allstór hópur manna kominn með stöðu grunaðra sem aftur opnar réttarheimildir til þess að kyrrsetja eignir ef ástæða er til slíks.““

Á haustþingi 2008 tafðist afgreiðsla frumvarps míns um sérstakan saksóknara, vegna þess að Samfylkingin tengdi það frumvarpi um sérstaka rannsóknarnefnd á vegum alþingis og vinstri-grænir undir forystu Steingríms J. drógu lappirnar  varðandi rannsóknarnefndina.

Mér finnst þess vegna grátbroslegt, að lesa haft eftir Steingrími J. að „alltaf“ sé „vont að svona dragist“ – þessi nýja skoðun hans er svo sem í samræmi við u-beygjurnar, sem hann hefur tekið í afstöðunni til ESB-aðildar og ICESAVE. Hinu verður fróðlegt að fylgjast með, hvernig Steingrímur J. ætlar að bera sig að við að kyrrsetja eignir auðmanna. Hann skyldi þó ekki vera að gefa réttarkerfinu fyrirmæli? Hvaðan hefur hann umboð til þess?

Í dag var sagt frá því, að lögreglan hefði í samvinnu við Europol og tollgæsluna komið upp um fíkniefnasmyglhring og handtekið nokkra menn. Mér segir svo hugur, að staða lögreglunnar til að glíma við þetta mál væri betri nú, ef samþykkt hefði verið frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, sem ég lagði fyrst fram á þinginu 2007/08 og snýr meðal annars að því, að menn grunaðir um fíkniefnasmygl verði að sanna fyrir lögreglunni, hvernig þeir hafi aflað fjár til eignamyndunar.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, kom í veg fyrir afgreiðslu þessa frumvarps vorið 2008 með breytingartillögu um alls óskylt mál, það er um vændi.  Á síðasta þingi reyndist ekki áhugi hjá nýjum meirihluta allsherjarnefndar að afgreiða þetta mikilvæga mál.

 

Satt að segja gef ég ekki mikið fyrir orð Steingríms J. eða annarra vinstri-grænna um málefni lögreglunnar. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri-grænna, varð sér hvað eftir annað til skammar á síðasta vetri með framkomu sinni í garð lögreglunnar. Ég hef ekki heldur orðið var við, að Steingrímur J. sýni mikinn skilning á löggæslumálum við ráðstöfun opinberra fjármuna, eins og best sést af fjárhagsvanda landhelgisgæslu og lögreglu en frá áramótum hefur verið ljóst, að þessar stofnanir þyrftu aukafjárveitingu, gæslan vegna gengisþróunar og lögreglan vegna óvæntra verkefna vegna bankahrunsins.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður vinstri-grænna, greiddi atkvæði gegn því á þingflokksfundi, að ríkisstjórnin fengi umboð til að ganga frá ICESAVE samningnum. Hefði eitthvað sambærilegt gerst í þingflokki sjálfstæðismanna, hefði viðkomandi mál ekki verið afgreitt úr þingflokknum heldur leitast við að komast að samkomulagi innan þingflokksins, þar sem staða ríkisstjórnar hefði verið talin í húfi fyrir utan samheldnina innan flokksins.

Guðfríður Lilja segir ljóst, að málið sé gríðarlega erfitt en nú sé tímabært að þingmenn fylgi eigin sannfæringu en ekki flokkslínu! Telur hún afstöðu sína í samræmi við það, sem hún vill, að einkenni „nýja Ísland“. Á alla mælikvarða er hér um svo alvarlega brotalöm í stuðningi við lykilmál ríkisstjórnar að ræða og trúverðugleika hennar út á við og innan lands, að frekar ætti að velta fyrir sér nýrri ríkisstjórn en nýju landi.

Það er dæmigert fyrir stjórnmálamat þeirra, sem ráða fjölmiðlum, að nú voru engir stjórnmálafræðingar kallaðir á vettvang til skrafs og ráðagerða - ekki einu sinni Þórólfur Matthíasson, prófessor við HÍ, sem tekur að sér að skýra öll mál ríkisstjórninni í hag.

Sé það stefna þingflokksformannsins, að sannfæringu skuli fylgt, er merkilegt, að henni skuli hrundið í framkvæmd vegna ICESAVE en ekki vegna ESB-aðildarviðræðnanna. Það segir í sjálfu sér mikla sögu um, hvernig vinstri-grænir hafa farið í gegnum sjálfa sig í ESB-málum til að þóknast Samfylkingunni. Þeir þola síðan ekki álagið vegna ICESAVE, sem Steingrímur J. tekur þó að sér  að verja jafnvel af meiri þunga en ESB-stefnuna.

Hræðsluáróður ríkisstjórnarinnar vegna ICESAVE tók á sig þá mynd í dag, að Jóhanna Sigurðardóttir lét birta grein undir sínu nafni í Morgunblaðinu, þar sem hún segir, að án ICESAVE-samningsins sé Ísland einangrað í alþjóðasamfélaginu. Mætti helst halda, að önnur ríki forðist okkur jafnvel meira en Norður-Kóreu, ef við göngumst ekki undir afarkosti samningisns, sem þeir Steingrímur J. og Svavar Gestsson líkja við meistarastykki, án þess að þingflokkur vinstri-grænna sameinist að baki þeim.

Rök stjórnarflokkanna fyrir ICESAVE hafa verið þau helst, að sl. haust hafi verið samið óhagfellt minnisblað með Hollendingum um hugsanlega lausn málsins. Össur Skarphéðinsson sagðist sem starfandi utanríkisráðherra síðan hafa komið í veg fyrir sambærilegt minnisblað með Bretum – hann lætur þess ógetið, að minnisblaðið með Hollendingum var gert á ábyrgð hans sem starfandi utanríkisráðherra!

Undarlegt er, að í fjölmiðlum skuli látið eins og um mikilvæga frétt sé að ræða, þegar Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, segir, að berist aðildarumsókn frá Íslandi, á meðan Svíar fara með forsæti í ESB, muni þeir reyna að senda hana til umsagnar hjá framkvæmdastjórn ESB. Hver er fréttin? Þetta er aðeins hið eðlilega ferli innan ESB og ekkert nýtt í orðum Bildts.

Össur Skarphéðinsson hefur talið Jóhönnu Sigurðardóttur trú um, að Svíar verði að fá umsóknina snemma í júlí, svo að þeir geti komið henni áfram. Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finna, sérfræðingur í málefnum ESB, flutti hins vegar þau varnaðarorð hér í Reykjavík í dag, að síður en svo væru öll ESB-ríki þeirrar skoðunar, að ESB ætti að stækka meira.

Jafnaðarmenn, flokksbræður Samfylkingarinnar, hlutu hrikalega útreið í ESB-þingkosningunum um helgina og mega sín minna innan sambandsins en áður. Hvergi á ESB-Norðurlöndum eru jafnaðarmenn í stjórn og þar sem þeir eru í ríkisstjórnum í Evrópu, Bretlandi og Spáni, eiga þeir undir högg að sækja heima fyrir og eru ekki til stórræða innan ESB.

Undarlegar eru lausafréttir um, að innan stjórnarráðsins séu menn teknir til við að kalla á eftir mönnum til þátttöku í aðildarviðræðum við ESB og jafnvel er látið að því liggja, að í Brussel hafi ESB skipað hóp manna til að skoða Ísland sem væntanlegt umsóknarland.  Að þetta skuli gerast á sama tíma og látið er eins og utanríkismálanefnd alþingis sé með málið á upphafsreit, er í góðu samræmi við pukrið í íslenskum utanríkismálum um þessar mundir. Steingrímur J. sagði alþingi 3. júní, að engar alvöruviðræður væru hafnar um ICESAVE við Breta, sólarhing síðar var þingmönnum kynntur texti að samningi!

Á norrænum utanríkisráðherrafundi hér í Reykjavík í dag var rætt um Stoltenberg-skýrsluna svonefndu og er ætlun ráðherranna að vinna að því að hrinda ýmsu af því, sem þar stendur, í framkvæmd. Ljóst er þó, að hvorki Finnar né Svíar hafa mikinn áhuga á að taka þátt í loftrýmiseftirliti á N-Atlantshafi frá Íslandi í samræmi við hugmyndir Stoltenbergs. Afstaða þeirra er, að þetta sé málefni NATO.